Nýtt sniðmát fyrir fræðsluáætlun

Ef allt væri eðlilegt í samfélaginu færi nú í hönd  sá tími þar sem stjórnendur væru að  horfa til haustsins og  skipuleggja þann hluta rekstursins sem tekur til mannauðs- og fræðslumála. Einhverjir eru þar, einhverjir ekki og einhverjir eru vonandi að draga upp plan B. 

Fyrir þá stjórnendur sem ekki hafa bakgrunn eða reynslu af þróun mannauðs en eru í rekstri og vilja fjárfesta í sínu starfsfólki, þá er mikilvægt að skoða hvert er stefnt og hvaða hæfni þarf til að ná þangað sem stefnt er, þannig að allir hlutaðeigandi hafi hag af

Í því samhengi er algengt er að stjórnendur velti fyrir sér leiðum í greiningu hæfniþarfa eða hvernig best sé að draga upp fræðsluáætlun.  

Þörfin á hæfniþróun er sérlega mikilvæg fyrir einstaklinga með litla formlega starfsreynslu og litla grunnfærni enda sá hópur sem er viðkvæmari fyrir breytingum á vinnumarkaði.  Mikilvægt að þeir hópar sitji ekki eftir þegar kemur að þjálfun starfsfólks og fái viðeigandi þjálfun og fræðslu.  

Á vef Starfsafls má nálgast handbók á rafrænu formi um leiðir að árangursríkri fræðslu og þjálfun. I handbókinni er að finna kafla sem taka meðal annars á eftirfarandi:

  • Ferli fræðsluáætlunar
  • Stefnumiðuð þróun mannauðs
  • Þarfagreining fræðslu og þjálfunar
  • Samstilling aðferða til árangurs
  • Væntingaskil

Handbókin er hagnýtt verkfæri og getur auðveldað mörgum fyrstu skrefin þegar kemur að gerð fræðsluáætlunar.  Hér má hafa í huga að handbókin er leiðbeinandi og fyrir þá sem eru með minni rekstrareiningar er vel hægt að fara einfaldari og skemmri leiðir.

Á vefsíðu Starfsafls má síðan finna nýtt sniðmát fyrir fræðsluáætlun auk þess sem þar er að finna sýnishorn af útfylltri fræðsluáætlun. Sniðmátið er hægt að aðlaga að þörfum, stækka, minnka eða breyta á hvern þann hátt sem hentar rekstrarforminu, fjölbreytni starfa og fjölda starfsmanna. 

Á vefsíðu Starfsafls má lesa hvaða þættir það eru sem eru styrkhæfir en fyrirtæki sem greiða af starfsfólki til Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar, geta sótt um styrki vegna námskeiðahalds til Starfsafls.

Starfsafl styrkir að öllu jöfnu fyrirtæki um 75% af kostnaði fyrir sína félagsmenn og geta fyrirtæki sótt um allt að þrjár milljónir króna á ári.  Skilyrði er að sá starfsmaður (eða starfsmenn) sem sótt er um styrk vegna hafi verið starfandi hjá fyrirtækinu þegar námskeið fór fram, nafn hans og kennitala komi fram á reikningi (eða fylgiskjali) þar sem fyrirtækið er tilgreindur greiðandi og iðgjöld hafi borist viðkomandi stéttafélagi.  Athugið að fram til 30. september 2020 er endurgreiðslan 90% af kostnaði.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 6930097 eða með tölvupósti á lisbet@starfsafl.is Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

Greinastúfar á vef Starfsafls tengdir fræðslu og gætu gagnast:

Brúum bilið og mætum framtíðinni 

Er þitt fyrirtæki með plan B ?

Er fræðslan að skila því sem henni er ætlað?

Lögbundin fræðsla og áskoranir atvinnulífsins

Myndin með fréttinni er fengin hér