Brúum bilið og mætum framtíðinni

Mannauðurinn er málið, heyrist oft sagt þegar rætt er um fyrirtækjarekstur og það er sannarlega hárrétt. En mannauðurinn er kvikur og gerir kröfur um þjálfun svo ekki myndist hæfnibil, bil sem kemur í veg fyrir að allir hlutaðeigandi nái markmiðum sínum. En hvað er hæfnibil og hvernig er hægt að brúa það ?

Hæfnibil er mismunurinn á hæfni sem atvinnurekendur vilja eða þurfa og þeirrar hæfni sem starfsfólk hefur yfir að ráða.

Að framkvæma greiningar á hæfnibili, að hæfnigreina, er mikilvægt til að bera kennsl á þá hæfni sem nauðsynleg er til að mæta  þörfum starfsfólks og þróun starfshópsins samhliða stefnu, markmiðum og framtíðarsýn fyrirtækisins.

Það eru tvær leiðir til að mæta hæfnibili; þjálfun eða ráðning. Ákveða þarf hvaða nálgun (eða samsetning) virkar best fyrir hvert hæfnibil, svo sem hvort einhver í starfshópnum hafi fengið viðeigandi þjálfun og geti stigið inn með þá færni sem vantar, hvort hægt sé að þjálfa einhvern upp eða hvort þurfi að ráða inn einstakling með þá hæfni sem óskað er eftir. Rétt þjálfun getur hjálpað til við að  að loka eyðum milli núverandi og æskilegs hæfnistigs og þannig séð til þess að fyrirtækið og starfsfólk þess sé í stakk búið til að mæta verkefnum morgundagsins. Að því sögðu er fjöldi fyrirtækja sem þjálfar sitt starfsfólk  til að mæta hæfnibilum. Í einhverjum tilfellum getur það verið kostnaðarsamt að fara þá leið að þjálfa í lausar eða nýjar stöður en það er oftar en ekki hagkvæmara en nýráðning.

Þörfin á hæfniþróun er sérlega mikilvæg fyrir einstaklinga með litla formlega starfsreynslu og litla grunnfærni enda sá hópur sem er viðkvæmari fyrir breytingum á vinnumarkaði, svo sem vegna tækniþróunar. Mikilvægt að þeir hópar sitji ekki eftir þegar kemur að þjálfun starfsfólks og fái viðeigandi þjálfun, þjálfun sem mætir þeirra hæfnibili, í stað þess að vera settir út.

Fjöldi ráðgjafa veitir aðstoð við hæfnigreiningar og þá er Fræðslustjóri að láni kjörin leið.  Fræðslustjóra að láni” felur í sér  fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar má fá á skrifstofu Starfsafls.