Er fræðslan að skila því sem henni er ætlað?

Það getur verið flókið að stýra mannauð fyrirtækis en staðreyndin er sú að um leið og einn einstaklingur er kominn á launaskrá þá þarf að huga að mannauðsstjórnun. Hugtakið tekur til margra þátta og þar á meðal er fræðsla starfsfólks, en sá þáttur er því miður oft látinn mæta afgangi eða ekki hugsaður til enda.  Ákvörðun um fræðslu er tekin í flýti, jafnvel á þann veg að hugmynd er kastað fram í spjalli eða námskeiðshaldari kemur og kynnir þjónustu sína sem síðan er keypt án frekari skoðunar.  

En hvað felst í því að hugsa “fræðsluna” frá upphafi til enda ?

Fyrst og fremst þarf að skoða hvaða þekkingu og færni starfsfólk vantar til að sinna störfum sínum sem best, til að því líði sem best í sínu starfi og fái tækifæri til vaxtar.  Þá þarf einnig að skoða hvaða færni vantar til að rekstrarmarkmiðum sé náð.

Þegar tekin er ákvörðun um fræðslu og þjálfun starfsfólks er nauðsynlegt að vita og þekkja hverju fræðslunni er ætlað að skila. Í því felst að mæla þörfina og það eru nokkrar einfaldar leiðir sem eru á allra færi.

Í fyrsta lagi að hlusta á þarfirnar. Ein leiðin, og sú sem oft er notuð, er að setja saman saman rýnihóp.  Sú leið hentar fyrir vel flestar stærðir fyrirtækja, svo lengi sem hóp er náð. Þá getur rýnihópurinn verið samansettur af starfsfólki sem sinnir ólíkum störfum og hentar því allt eins vel í litlum fyrirtækjum sem stórum.  Önnur leið sem hægt er að fara er að taka stutt og skipuleg viðtöl eða samtöl við starfsfólk  eða dreifa hnitmiðuðum spurningalistum.  Þetta mun ekki aðeins gefa  innsýn í námsþörfina heldur einnig hvaða tegund af fræðslu, framsetning og efnisinnihald, myndi svara þeirri þörf sem er til staðar, ef vandað er til verksins strax í upphafi.  Þegar þessi leið er farin eru meiri líkur á því að markmiðum verði náð og fræðslan skili því sem henni er ætlað.

Það kemur fyrir að starfsfólk á erfitt með að segja hvaða fræðslu því vantar og ýmsar ástæður geta verið þar á bak við. Þá þarf að finna leið í kringum það sem gæti meðal annars verið sú að biðja einhvern sem tengist ekki fyrirtækinu beint til að sinna gagnaöfluninni. Allt er mögulegt.

William E. Deming sagði; “án gagna ertu bara annar maður með skoðun”.  Ekki þarf að hafa fleiri orð um það. 

Fræðsla kostar. Hún kostar tíma og fjármagn og hvorutveggja ber að fara vel með. Því er mikilvægt að leggja í nauðsynlega grunnvinnu áður en nokkuð annað er gert. Þá að minnsta kosti er vitað hverju fræðslunni er ætlað að skila og eftirleikurinn verður einfaldari. 

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna nánar mögulega styrki er bent á að hafa samband við skrifstofu Starfsafls