Mikil ánægja með ársfund Starfsafls

Ársfundur Starfsafls var haldinn fimmtudaginn 9. maí, á Vox Club, Hilton Reykjavík Nordica. Þetta var í þriðja sinn sem haldinn er  fundur af þessu tagi þar sem fulltrúum fyrirtækja, eigendum sjóðsins, ráðgjöfum sem starfa á vegum sjóðsins og öðrum samstarfsaðilum er boðið. 

Dagskrárliðir voru fjórir  talsins og tók formleg dagskrá því rétt um klukkutíma.

Fomaður stjórnar Starfsafls, Fjóla Jónsdóttir, bauð gesti velkomna. Í innleggi sínu fór hún inn á störf stjórnar og lagði áherslu á mikilvægi þess að stjórn sjóðsins væri lausnamiðuð og hlustaði eftir þörfum atvinnulífsins.  

Þá tók Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls við og kynnti mælaborð sjóðsins, Vel er fylgst með öllum lykiltölum alla mánuði ársins. Heildarfjárhæð styrkja árið 2018 var 253 milljónir króna. Þá var um 27% aukning í styrkfjárhæð til einstaklinga og 24%  til fyrirtækja. Þá benti Lísbet á það hversu hátt hlutfall styrkja væri vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra, en hlutfall þess af styrkjum til fyrirtækja var 25%.

Hér má sjá ársskýrslu 2018

Næst á mælendaskrá var Eir Arnbjarnardóttir, mannauðsstjóri hjá CenterHotels og veitti hún  innsýn í fræðslumál fyrirtækisins.

Hjá CenterHotels starfa um 280 starfsmenn og samanstendur teymið af 29 þjóðernum. CenterHotels leggur mikla áherslu á þjálfun starfsmanna í öllum deildum, bæði til að tryggja gæða þjónustu til gesta og til að efla starfsmenn í starfi. Mikið er lagt upp úr því að veita starfsmönnum tækifæri til að þróast í starfi en fyrirtækið hefur unnið stefnumiðað að fræðslu innan fyrirtækisins og fékk til að mynda Fræðslustjóra að láni árið 2013.

Erindi hennar var mjög áhugavert og ljóst að hjá hótelkeðjunni er metnaðarfullt starf unnið í mannauðs- og fræðslumálum. 

Að síðustu tók til máls Árný Elíasdóttir, ráðgjafi og eigandi Attentus.  Hennar erindi fjallaði um mælanlegan ávinning af fræðslu.

Erindið  var hnitmiðað og lagði hún áherslu á mikilvægi þarfagreiningar og þess að vel væri skoðað hverju fræðsla eigi að skila. Þá kynnti hún nokkrar leiðir við mælingar á fræðslu og sagði mikilvægt að skoða alltaf heildarmyndina en það mætti aldrei gleyma að fagna því sem vel er gert.

Starsfafl kann þeim bestu þakkir fyrir sín innlegg sem voru áhugaverð og upplýsandi.

Að loknum erindum var boðið upp á veitingar og var mikið spjallað. Ekki var annað að heyra en að mikil ánægja hefði verið með fundinn en það að halda fund af þessu tagi og hitta þá sem starfa að fræðslu- og símenntunarmálum fyrirtækja, er gríðarlega mikilvægt fyrir þá sem standa að sjóðnum.