Fjöldi gesta á vorfundi Starfsafls

Fimmtudaginn 2. maí sl. var vorfundur Starfsafls haldinn á Vox Club, Hilton Reykjavík Nordica. Þetta var í sjötta sinn sem haldinn er opinn fundur þar sem fulltrúum fyrirtækja, eigendum sjóðsins, ráðgjöfum sem starfa á vegum sjóðsins og öðrum samstarfs- og  hagaðilum var boðið.

Mæting fór fram úr björtustu vonum og heyra mátti almenna ánægju með fundinn og fundarefni og ljóst að vorfundur Starfsafls hefur svo sannarlega fest sig í sessi.  

Mæting fór fram úr björtustu vonum og heyra mátti almenna ánægju með fundinn og fundarefni og ljóst að vorfundur Starfsafls hefur svo sannarlega fest sig í sessi.

Dagskrá fundarins var samansett af þremur erindum þar sem starfræn fræðsla var í forgrunni auk þess sem formaður stjórnar Starfsafls og framkvæmdastjóri voru með stutt innlegg.

Kristján J. Kristjánsson, fulltrúi SA í stjórn Starfsafls sá um fundarstjórn og bauð hann gesti velkomna.

Þá tók Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls við og fór yfir helstu tölur og verkefni ársins 2023. Í erindi hennar mátti skýrt sjá þá aukningu sem verið hefur í umsóknum styrkja og aukningu í fjölda fyrirtækja.  Þá dró hún upp myndir af því hversu mikill og marþættur ávinningur er fyrir fyrirtæki að nýta sjóðinn og hvatti fyrirtæki eindregið til að skoða sín mál. Hér má sjá erindi Lísbetar

Að lokinni yfirferð Lísbetar tók Dagbjört Una Helgadóttir, mannauðsstjóri hjá AÞ- þrifum til máls og  ræddi áskoranir í íslenskukennslu í fjölþjöða starfsumhverfi og innleiðingu á Bara tala íslenskuappinu undir yfirskriftinni; Að sigra fræðslumálin á hraða hænunnar. Hún dró upp myndir af þeim áskorunum sem fyrirtækið stendur frammi fyrir þegar kemur að fræðslu og hvernig þau mæta þeim áskorunum á hraða sem hentar þeirra umhverfi, en með skýr markmið að leiðarljósi.  

Þá tóku Elín Yngvadóttir og Ingibjörg Emilsdóttir við keflinu og  fjölluðu um stafræna fræðslu í fyrirtækjum. Erindi sitt byggðu þær á lokaverkefnum sínum til M.ed. prófs í Kennslu  upplýsingatækni og miðlunar. Þær starfa báðar að fræðslumálum hjá Isavia og hafa verið að rannsaka hvernig hægt sé að auka árangur af þjálfun og fræðslu með því að kanna viðhorf starfsfólks og bæta vinnulag. Þær skiptu erindinu skemmtilega á milli sín og mikill áhugi var meðal gesta á því sem þær höfðu fram að færa. Lokaverkefnin þeirra má nálgast á skemmunni.

Síðust var svo Ólína Laxdal verkefnastjóri hjá Hæfnisetri ferðaþjónustunnar og gaf hún góð ráð áður en lagt er af stað í stafræna umbreytingu.  Í erindi sínu kom hún m.a. inn á það hversu mikilvægt það er að   horfa til núverandi stöðu áður en farið er í stafræna umbreytingu og athuga hvort markmið og stefna henti umbreytingunni. Það væri jafnframt mikilvægt að spyrja að því hver hvatinn er að stafrænni umbreytingu áður en lagt er af stað í þróun og innleiðingu. 

Að þessum erindum loknum var blásið til hlés, gestum boðið upp á veitingar og gefinn góður tími til að að spjalla og tengjast og gaman var að sjá hversu líflegar urmæður urðu meðal gesta. 

 

Stjórn og framvæmdastjóri Starfslafls þakka öllum kærlega fyrir komuna á vorfundinn og þakka sérstaklega fyrirlesurum fyrir þeirra innlegg. 

Um Starfsafl:

Starfsafl fræðslusjóður er starfsmenntasjóður Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.

Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.