Afhverju er umsókn hafnað ?

Það sem af er ári hefur Starfsafli borist 12 umsóknir.  Það þykir í sjálfu sér ekki fréttnæmt en það sem þykir fréttnæmt og tilefni til þess að rita nokkrar línur er að meira en helmingi þeirra, alls 7 umsóknum,  hefur verið hafnað. Sé litið til síðasta árs þá var tæplega 18% umsókna hafnað og það er einfaldlega of hátt hlutfall, þar sem á bak við hverja höfnum liggur talsverð vinna, vinna sem fer í að skoða þau gögn sem fylgja með umsókn, rýna í félagsaðild, bera saman bækur við hina sjóðina og  kalla eftir réttum gögnum þar sem það á við. Oft ber það síðastnefnda ekki árangur og þá er umsókn hafnað.  Þá þarf umsækjandinn jafnvel að leggja inn nýja umsókn með viðeigandi gögnum.  Það er því mikill tímasparnaður að vanda vel til verka og skila inn öllum þeim gögnum sem óskað er eftir. Það einfaldar mjög ferlið fyrir alla hlutaðeigandi.

Þegar lögð er inn umsókn þá þarf fyrst að skoða hvaða reglur eiga við hjá sjóðnum (ekki er nóg að fara inn á www.attin.is heldur þarf að skoða hvern sjóð fyrir sig þar sem  www.attin.is er aðeins vefgátt fyrir marga mismunandi sjóði), finna til reikning, staðfestingu á greiðslu, lista yfir þátttakendur þar sem kennitala og stéttafélagsaðild kemur skýrt fram og lýsingu á þeirri fræðslu sem fram fór.  Lýsingin verður að vera þannig úr garði gerð að þægilegt sé að sjá hvað fram fór og verður sannarlega að falla að skilyrðum sjóðins. 

Þar sem við erum í upphafi  nýs árs þykir við hæfi að rifja upp afhverju umsókn er hafnað,  hvað er styrkt og hvað ekki sem og hvaða gögn þurfa að fylgja með umsókn. 

Á upptalningunni hér fyrir neðan má sjá helstu ástæður þess að umsókn er hafnað.  Athugið að upptalningin er ekki tæmandi. 

  • Umsókn átti ekki að berast Starfsafli
  • Fullnægjandi gögn fylgja ekki með umsókn
  • Enginn félagsmanna er innan aðildarfélaga Starfsafls
  • Reikningur er á kennitölu annars fyrirtækis en þess sem er umsækjandi.
  • Reikningur er á nafni félagsmanns en ekki fyrirtækis (á ekki við um sameiginlegan styrk)
  • Umsókn er tvítekin 
  • Námskeiðið hefur ekki farið fram
  • Umsókn er ekki vegna námskeiðskostnaðar
  • Umsókn er vegna ráðgjafar eða handleiðslu
  • Á reikningi stendur ráðgjöf en ekki námskeið 
  • Reikningur er ekki greiddur
  • Reikningur með umsókn er eldri en 12 mánaða
  • Námskeið uppfyllir ekki skilyrði sjóðsins
  • Gögn með umsókn eru í óreiðu og erfitt að lesa saman
  • Annað

Til frekari skýringa þá má sjá hér upptalningu á því  hvað er styrkt og hvað ekki.  Athugið að listinn er ekki tæmandi og því mikilvægt að skoða vel reglur um fyrirtækjastyrki, þar sem þær reglur ná einnig til styrkfjárhæða, stafrænnar fræðslu, nýsköpunar og þróunar og fleira. 

Hvað er styrkt:

  • Starfstengd fræðsla sem fram fer fyrir hóp starfsfólks eða einstakling
  • Starfstengd fræðsla  sem fram fer á íslenskum vefsíðum 
  • Túlkaþjónusta á starfstengdu námskeiði fyrir hóp starfsfólks á vinnustað þar sem greitt er fyrir hvorutveggja 
  • Íslenskunám, sjá hér
  • Nám í fegrunarfræðum, sjá  hér 
  • Nám tekið erlendis, sjá hér
  • Prófa- og skírteinisgjöld sem órjúfanlegur hluti af námi /námslokum
  • Starfstengd markþjálfun sem nemur að hámarki 12 tímum innan almanaksárs.  Með umsókn þurfa að fylgja upplýsingar um markþjálfann en skilyrt er að markþjálfinn hafi lokið námi í markþjálfun frá viðurkenndum skóla.  Þá verður fjöldi tíma að koma fram á reikningi. 
  • Raunfærnimat á móti námskrá 
  • Raunfærnimat á móti viðmiðum atvinnulífsins / fagbréf atvinnulífsins þar sem gjald er samkvæmt verðskrá Fræðslusjóðs og skilyrt er að uppfylli hæfni- og gæðakröfur Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins. Styrkur er ekki greiddur út fyrr en þátttakandi hefur að fullu lokið matinu auk starfsþjálfunnar og fagbréf fylgi með umsókn.  Styrkur er 90% af gjaldi samkvæmt verðskrá Fræðslusjóðs. 
  • Náms-og starfsráðgjöf sem greidd eru fyrir starfsfólk sem stendur utan framhaldsfræðslunnar og framkvæmd er af símenntunarmiðstöð 

Hvað er ekki styrkt:

  • Akstur fræðsluaðila
  • Enskumat
  • Flug, hótel eða annað uppihald fræðsluaðila / leiðbeinanda
  • Fræðsla  sem fer fram á erlendum vefsíðum, að undanskildu háskólanámi hjá viðurkenndum háskólum.
  • Gjald eða kostnaður sem til fellur vegna innleiðingar eða utanumhalds fræðslu
  • Ráðgjöf eða handleiðsla 
  • Ríkisborgarapróf
  • Sýnatökur, kannanir, rannsóknir og þarfagreiningar
  • Túlkaþjónusta fyrir einstaklinga (t.d. í prófum eða á starfstengdum námskeiðum utan vinnustaðar)
  • Veitingar á námskeiðum

Að síðustu  þá þarf starfstengd fræðsla að uppfyllan neðangreind viðmið:

Skilgreining fræðslu (náms / námskeiðs)

Starfsafl styðst við flokkun fræðsluaðila við skilgreiningu á hvaða nám/námskeið falla undir almennt starfsnám sbr. eftirfarandi:

Afmarkaður hluti náms sem fylgir fyrirfram ákveðinni áætlun eða skilgreiningu og lýkur yfirleitt með vottun á frammistöðu eða annars konar staðfestingu

 

Skilgreind aðkeypt námskeið verða að falla að viðmiðum sjóðsins um skilgreiningu á námskeiði.

1. Hafa skilgreint upphaf, endi og leiðbeinanda sem ætla má að sé til þess bær að standa fyrir kennslu

2. Skýr efnistök og markmið

3. Þarf að vera öðrum fyrirtækjum aðgengilegt á sama eða sambærilegu verði

Hér geta vinnustofur tengdar stefnumótun innan fyrirtækis eða vinnu við framtíðarsýn fyrirtækis því miður ekki fallið undir skilgreiningu námskeiðs þar sem verið er að skilgreina, meta og túlka innri starfsemi og mögulegar úrbætur.

 

Nauðsynleg gögn með umsókn

Þau gögn sem þarf með umsókn  eru án undantekninga samanber eftirfarandi:

1. Upplýsingar um fræðsluna (stutta samantekt á efnisþáttum eða lýsingu á nám, slóð á vefsíðu), sjá hvað er styrkt hér

2. Reikningur  á kennitölu fyrirtækis, þar sem sundurliðun kostnaðarþátta er skýr. Hér er undantekning vegna sameiginlegs styrks félagsmanns og fyrirtækis.  Reikningur má ekki vera eldri en 12 mánaða.  

3. Staðfesting á greiðslu, þ.e. bankakvittun úr íslenskum banka sem staðfestir greiðslu í íslenskum krónum.

4. Listi  yfir þátttakendur, nöfn, kennitölur og stéttarfélagsaðild (gott að hafa í excel skjali)

5. Yfirlit yfir skil á starfsmenntaiðgjaldi  vegna þess starfsfólks sem telst til félagsmanna Eflingar, sjá nánar hér

Þá þarf alltaf að hafa í hug að reglur sjóða geta verið mismunandi og þegar sótt er um styrk vegna stafrænnar fræðslu og áskriftar að fræðslusöfnum eða öppum en þá þarf að skila inn viðbótargögnum og lesa má nánar um það undir reglum um fyrirtækjastyrki, sjá hér

 

Það er alltaf velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls ef frekari upplýsinga eða aðstoðar er óskað.  

 

Starfsafl áskilur sér rétt til að taka til skoðunar og kalla eftir nánari upplýsingum á efnisinntaki, kostnaði eða hæfi leiðbeinanda. Að sama skapi áskilur Starfsafl sér rétt til að gera athugasemdir eða takmarka styrkveitingu ef verðlagning náms getur ekki talist í samræmi við viðmið markaðarins, ef ætla má að skilgreindur undirbúningstími sé umfram það sem eðlilegt getur talist eða ef vísbendingar eru um að verðlagning ber þróunarkostnað umfram það sem eðlilegt má teljast. Að gefnu tilefni áskilur Starfsafl sér rétt til að hafna umsóknum.

 

Um Starfsafl:  

Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, geta sótt um í sjóðinn.  Sótt er um á www.attin.is

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 5181850 eða með tölvupósti á [email protected]  Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

Myndin með fréttinni er fengin hér