Vel heppnuðum vorfundi lokið

Vorfundur Starfsafls var haldinn í gær, fimmtudaginn 11. maí  á Vox Club, Hilton Reykjavík Nordica. Þetta var í fimmta sinn sem haldinn er opinn fundur þar sem fulltrúum fyrirtækja, eigendum sjóðsins, ráðgjöfum sem starfa á vegum sjóðsins og öðrum samstarfsaðilum var boðið. Mæting fór fram úr björtustu vonum og heyra mátti almenna ánægju með fundinn og fundarefni.

Mæting fór fram úr björtustu vonum og heyra mátti almenna ánægju með fundinn og fundarefni.

Dagskrá fundarins var samansett af fjórum stuttum erindum þar sem fræðsla og starfsmenntun var leiðarstefið.

Snorri Jónsson, fulltrúi SA í stjórn Starfsafls sá um fundarstjórn og bauð hann gesti velkomna. Í ávarpi sínu fór hann meðal annars inn á það hversu mikilvæg starfsemi Starfafls væri þar sem fulltrúar launþega og atvinnurekenda sameinast í því markmiði að efla starfsmenntun. 

Þá tók Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls við og fór yfir helstu tölur og verkefni ársins 2022. Hún ræddi einnig mikilvægi þess að horfa til fyrirtækja sem námsstaða, að fyrirtæki setji sér stefnu í fræðslumálum, haldi fræðslubókhald og fjárfesti í sumarstarfsfólki.  

Að lokinni yfirferð Lísbetar tók Eva Karen, eigandi Effect ehf, til máls. Yfirskrift hennar erindis var ,,Að nýta gögn við gerð fræðsluáætlunar”  Hún sagði frá nýrri aðferðafræði sem hún er að þróa og nota með fyrirtækjum til að greina fræðsluþarfir innan fyrirtækja og stofnanna og virkja starfsfólk til að vilja taka þátt og leggja meiri áherslu á eigin þjálfun og fræðslu. Afraksturinn er hugbúnaðarlausn sem spennandi verður að fylgjast með hvernig þróast í framtíðinni.

Þá tók Fanney Þórisdóttir, fræðslustjóri Bláa Lónsins við en Bláa Lónið fékk viðurkenningu sem menntafyrirtæki ársins 2023. Hún veitti innsýn í fræðslumál fyrirtækisins sem sannarlega eru til fyrirrmyndar og að hennar sögn,  aldrei lokið þar sem fræðsla og þróun væri  áframhaldandi verkefni og  alltaf væri hægt að gera eitthvað betur eða meira. Sagði hún að innan Bláa Lónsins væri frekar talað um  símenntun – frekar en orðinu endurmenntun; “því að menntun er aldrei í raun og veru lokið og tekur aldrei enda, og þú missir ekki allt í einu allt sem að þú hefur áður lært, það nýtist alltaf á einhvern hátt,,

Að þessum erindum loknum var blásið til hlés, gestum boðið upp á veitingar og gefinn góður tími til að að spjalla og tengjast og vonandi mynda tengingar sem ná út fyrir fundarsalinn.  

Að hléi loknu flutti Sveinn Wagge erindi sem bar yfirskriftina “Húmor í fræðslu” og uppskar mikinn hlátur fundargesta. Miðað við hans kynningu sem undirstrikaði mikiklvægi húmors í fræðslu þarf sannarlega að endurskoða víða framsetingu á fræðsluefni og bæta inn þar sem því verður við komið, örlítið af húmor.

Hægt er að sjá myndir frá fundinum á fésbókarsíðu Starfsafls