Nýtt nám í tæknilæsi og tölvufærni

Vinnuumhverfið er síbreytilegt og mikilvægt að búa yfir ákveðinni aðlögunarhæfni, að geta tileinkað sér nýja færni og vera í stakk búin til að taka breytingum. Að því sögðu hefur fjórða iðnbyltingin sannarlega knúið dyra og gerir kröfur um aukna samskiptahæfni, hugmyndauðgi og, tölvufærni í öllum starfsgreinum, svo dæmi séu tekin. Til að mæta því þarf  að sækja viðeigandi þekkingu og mikilvægt að hver og einn sé meðvitaður um nauðsyn þess.  Þá er símenntun starfsmanna sannarlega lykill fyrirtækja að betra starfsumhverfi, aukinni framleiðni og getur styrkt samkeppnisstöðu þeirra.

Í því samhengi er ánægjulegt að segja frá því að Framvegis og Tækninám.is hafa sett saman námskránna Tæknilæsi og tölvufærni: vinnuumhverfi samtímans, sjá hér og hefur hún nú hlotið vottun Menntamálastofnunar og bætist því í fjölbreytta flóru vottaðra námsleiða framhaldsfræðslunnar.

“Náminu er ætlað að ná til þeirra einstaklinga innan markhóps framhaldsfræðslunnar sem líklegir eru til að sitja eftir á vinnumarkaði sökum tækniframfara og breytinga á störfum sem þær hafa í för með sér,,

Markmið námsins er að auka tæknilæsi og tölvufærni námsmanna með það að leiðarljósi að efla hæfni einstaklinga til að takast á við breytingar og undirbúa þá þannig til að halda í við tækniframfarir í atvinnulífinu. Skilningur á grunnþáttum stafræns umhverfis verður efldur og grunnhæfni í stafrænu vinnuumhverfi samtímans verður þjálfuð. Að loknu námi hafa námsmenn öðlast hæfni og trú á eigin getu til að vinna við upplýsingatækni og í stafrænu umhverfi á þann hátt að þeir geta haft áhrif á vinnuumhverfi sitt með einföldum aðgerðum, geta t.d. stillt eigið notendaviðmót auk þess að átta sig á því hvað er á þeirra verksviði og hvað ekki þegar unnið er í stafrænu umhverfi. Námsmenn geta þannig styrkt stöðu sína á vinnumarkaði og hafa greiðari aðgang að fjölbreyttari störfum.

Höfundar námskrárinnar líta á það sem lykilatriði að þeir sem námið sitji öðlist aukna trú á eigin getu við vinnu í stafrænu umhverfi og geti þannig haldið í við nýjungar í tækniheiminum. Auk almennrar tæknifærni og læsis tekur námskráin til stýrikerfa, skýjalausna, sjálfvirkni og gervigreindar, öryggisvitundar auk fjarvinnu og fjarnáms. Efnið er yfirgripsmikið en ætlunin er að efla markhóp framhaldsfræðslunnar á þann hátt að gera heim tækninnar aðgengilegri.

Verið er að setja saman námskeið sem byggir á námskránni og verður það opið öllum áhugasömum og verði stillt í hóf.  Gert er ráð fyrir að námskeiðið, sem er 45 stundir, fari fram á nokkrum vikum.  Starfsafl fagnar þessu framtaki og mun birta upplýsingar um námskeiðin og tímasetningar þegar þær liggja fyrir en fyrirtæki jafnt sem einstaklingar geta sótt um styrk vegna þessa námskeiðs þegar til þess kemur en endurgreiðsla getur numið allt að 90% af reikningi, sjá reglur  um styrki til fyrirtækja hér og styrki til einstaklinga hér

Myndin með fréttinni er fengin hér