Fræðslustjóri að láni vinsæll

Í september bárust sjóðnum 8 umsóknir vegna Fræðslustjóra að láni.

Eftirspurn eftir verkefninu Fræðslustjóri að láni er alltaf að aukast enda sjá fyrirtæki mikinn hag í því. Aldrei fyrr hafa þó borist jafn margar umsóknir í einum mánuði og nú. Ástæða þessarar fjölgunar umsókna er meðal annars verkefni á vegum Hæfniseturs ferðaþjónustunnar sem felur í sér að greina, formfesta og mæla fræðslu innan fyrirtækja í ferðaþjónustu þar sem verkefnið Fræðslustjóri að láni er meðal þeirra leiða sem notaðar eru til skimunar á fræðsluþörfum.

Fræðslustjóri að láni er góð leið fyrir fyrirtæki til að koma fræðslu- og starfsmenntamálum í farveg. Engu að síður er mikilvægt að rétti tímapunkturinn sé valinn til að fara í verkefnið þar sem aðeins einu sinni er hægt að fá Fræðslustjóra að láni með styrk frá Starfafli.  Því ber að hafa í huga að framtíðarsýn fyrirtækisins sé skýr og markmið þekkt. 

Eitt af verkefnunum er nú þegar farið í gang en hin verkefnin eru enn til skoðunar. Í því felst að verið er að ræða við hlutaðeigandi, bæði forsvarsmenn fyrirtækja, ráðgjafa og þá sjóði  sem sótt er í þar sem í flestum tilfellum er um að ræða samstarfsverkefni Starfsafls og fleiri sjóða og fer þá eftir félagsaðild starfsmanna, hverjr koma að verkefninu hverju sinni.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér frekar Fræðslustjóra að láni geta haft samband við skrifstofu Starfsafls.