Opinn ársfundur Starfsafls vel sóttur

Ársfundur Starfsafls var haldinn fimmtudaginn 3. maí síðast liðinn á Vox Club, Hilton Reykjavík Nordica. Þetta var í annað sinn sem haldinn er opinn fundur þar sem fulltrúum fyrirtækja, eigendum sjóðsins, ráðgjöfum sem starfa á vegum sjóðsins og öðrum samstarfsaðilum var boðið. Mæting var góð og ljóst að fundur af þessu tagi er kominn til að vera.  

Dagskrá var áhugaverð enda byggð upp af frásögnum fyrirtækja og óhætt er að segja að mikill metnaður ríki í fræðslu- og starfsmenntamálum. 

Dagskrárliðir voru sex talsins og rúmaðist innan 90 mínútna.

Fomaður stjórnar Starfsafls, Hlíf Böðvarsdóttir framkvæmdastjóri mannauðssviðs Securitas, bauð gesti velkomna. Í innleggi sínu lagði hún á það áherslu hversu mikilvægt þetta samstarfs atvinnurekenda og launþega væri þegar kæmi að fræðslumálum, og vísaði hún þar í eigendur sjóðsins.  Þá undirstrikaði hún að vinnustaður dagsins í dag væri námsstaður og fram hjá því mætti ekki líta. 

Þá tók Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls við og fór yfir starfsárið og kynnti helstu tölur ársins, bæði hvað varðar styrki til einstaklinga og fyrirtækja, en heildarfjárhæð styrkja árið 2017 var 200 milljónir króna.  Þá var um 30% aukning í styrkjum til fyrirtækja en betur má ef duga skal þar sem aðeins  rétt 7% fyrirtækja með fleiri en einn starfsmann sækja í sjóðinn. Hér má sjá ársskýrslu 2017

Að því loknu tóku við fjögur erindi þar sem ábyrgðaraðilar fræðslumála veittu innsýn í sín fyrirtæki.

Fyrst tók til máls Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðs- og gæðasviðs hjá Íslandshótelum. Hún sagði frá því þegar hótelkeðjan fór í gegnum verkefnið Fræðslustjóra að láni og hvernig þau væri í dag að innleiða rafræna fræðslu með gerð eigin námsefnis og virkri þátttöku starfsfólks.

Þá tók Jóhanna Hreiðarsdóttir, mannauðs- og gæðastjóri Kynnisferða við og veitti meðal annars innsýn í endurmenntun atvinnubílstjóra en Kynnisferðir hafa verið í fararbroddi hvað þau mál varðar og ætla sér til að mynda að færa endurmenntunarmálin nær starfsmanninum með innleiðingu rafrænnar fræðslu.

Þá steig Tumi Ferrer, fræðslustjóri Te og kaffi við og fór yfir fræðslumál fyrirtækisins en þar er, eins og hjá Íslandshótelum, verið að innleiða rafræna fræðslu til viðbótar við öflug fræðslu starfsfólks sem alltaf hefst á nýliðaþjálfun.  Að því loknu er þjálfun margþætt og vel hugað að því að starfsfólk hafi val til viðbótar við þá þjálfun sem telst til skyldu. 

Að síðustu tók til máls Vilborg Lárusdóttir, mannauðssérfræðingur hjá Dominos við en fyrirtækið fékk m.a. Fræðslustjóra að láni árið 2016. Fyrirtækið er mjög öflugt í eigin fræðslu en þar hefur enginn störf fyrr en nýliðanámskeiði er lokið. 

Starsfafl kann þeim bestu þakkir fyrir sín innlegg sem voru áhugaverð og upplýsandi.

Að loknum erindum var boðið upp á veitingar og var mikið spjallað og ljóst, að opinn fundur af þessu tagi er kominn til að vera.