Öflugar konur í fyrsta kaffispjalli vetrarins

Fyrsta kaffispjalli vetrarins var vel tekið og fullbókað um leið og skráning var auglýst.  Við fögnum því og það styrkir okkur enn frekar í því að halda þessa morgunfundi okkar, að minnsta kosti á meðan áhugi er til staðar hjá þeim sem sækja okkur heim.

Í kaffispjallið mættu öflugar konur frá ólíkum fyrirtækjum sem áttu það allar sameiginlegt að starfa innan sinna fyrirtækja að mannauðs- og fræðslumálum.  Sumar áttu lengri starfsaldur en aðrar og var áhugavert að heyra þær deila sín á milli nálgun og reynslu.  Það var einnig áhugavert að heyra  hversu vandaðar þær allar  eru enda ekki öllum gefið að geta starfað á þessu sviði. 

Umræðu þessa fundar var engin takmörk sett og var farið um víðan völl.   Sem fyrr var  töluvert rætt um stafræna fræðslu, fræðslustefnur fyrirtækja og eigin fræðslu, svo fátt eitt sé nefnt.  Þá var talsvert rætt um aðkeypta fræðslu og  myndaðist skemmtileg umræða um fræðslu sem  snertir samfélag og menningalæsi en mikilvægt er að byggja undir hvorutveggja innan vinnustaða og stuðla að góðum vinnustað fyrir alla.  

Meðal þeirra námskeiða sem nefnd voru var Hinsegin fræðsla hjá Samtökunum 78 en þar er boðið upp á fræðslupakka sem henta vel inn á vinnustaði,  Fordómafræðslu hjá  Chanel Björk Sturludóttur og Miriam Petru Ómarsdóttur Awad og að síðustu fyrirlestur  Þorsteins V. Einarssonar kennara og kynjafræðings um karlmennskunaAllt eru þetta erindi og námskeið sem eru innan við klukkutíma að lengd og henta eins og fyrr segir vel inn á alla vinnustaði. 

Fyrir þá sem ekki þekkja þá felur kaffispjallið það í sér að við bjóðum þeim sem hafa með mannauðs- og fræðslumál að gera, til okkar í morgunkaffi. Þannig getum við hlustað, tekið samtalið, lært og leitað leiða til að mæta þörfum fyrirtækjanna og starfsmanna þeirra. Þá er ekki síður ávinningur fyrir okkar gesti að koma hingað á skrifstofu Starfsafls, kynnast sjóðnum betur, heyra hvað aðrir eru að gera í sínum mannauðs- og fræðslumálum og vonandi mynda gagnlegar tengingar.

Næsti kaffispjall er ekki komið á dagskrá en verður auglýst þegar nær dregur.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls.