Menntaverðlaun atvinnulífsins 2023

Í gær var haldinn hátíðlegur Menntadagur atvinnulífins í 10 sinn og við það tækifæri  veitt Menntaverðlaun atvinnulífsins  fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum.
 
Í ár var það Bláa Lónið sem valið var menntafyrirtæki ársins en mikill metnaður er lagður í menntun, þjálfun og fræðslu starfsfólks sem þar starfar. Bláa Lónið er eitt af stærstu fyrirtækjum í ferðaþjónustu á Íslandi með yfir 700 starfsmenn frá 40 þjóðlöndum. Mikill metnaður er lagður í fræðslu og hefur Starfsafl veitt styrki samkvæmt reglum til fyrirtækisins vegna þeirra félagsmanna sem þar starfa. 
 
Þá var Vaxtasprotum OR veittur Menntasproti atvinnulífins árið 2023. Verkefnið er nýtt hjá OR og öllum dótturfélögum fyrirtækisins með það að markmiði að þróa vinnustaðina og breytta menningu til þess að takast betur á við síbreytilegt umhverfi og auknar kröfur og væntingar viðskiptavina.
 
Starfafl óskar báðum þessum fyrirtækjum hjartanlega til hamingju með verðskuldaðar viðurkenningar. 
 
Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þvert á atvinnugreinar. Menntaverðlaunin eru valin af dómnefnd úr fjölda tilnefninga og veitt þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála.  
 
Lesa má nánar um Menntadag atvinnulífsins og veittar viðurkenningar á vef Samtaka atvinnulífsins.
 
Myndin er fengin af heimasíðu SA.  
 
Starfsafl – starfsmennt Samtaka Atvinnulífsins, Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, varð til í tengslum við kjarasamninga vorið 2000. Þá var samið um stofnun sérstaks sjóðs sem ætlað er að byggja upp menntun almennra starfsmanna fyrirtækja. Tekjur sjóðsins eru samningsbundin gjöld atvinnurekenda (starfsmenntaiðgjald) til sjóðsins eins og um semst á hverjum tíma.  Nánari upplýsingar má fá á vef Starfsafls, www.starfafl.is og á skrifstofu í síma 5107550.