Menntaverðlaun atvinnulífsins 2021

Í morgun var haldinn Menntadagur atvinnulífsins í áttunda sinn. Að þessu sinni fór dagurinn fram í sjónvarpi atvinnulífsins sem klukkustundar langur þáttur og gestir í beinu áhorfi  um 600 talsins.  Kastljósinu var beint að færni einstaklinga með áherslu á færni framtíðar sem byggð er á topp tíu færniþáttum World Economic Forum fyrir árið 2025.

Venju samkvæmt voru Menntaverðlaun atvinnulífsins einnig veitt fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Verðlaunin voru veitt af menntamálaráðherra, Lilju D. Alfreðsdóttur og forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Íslandshótel var valið Menntafyrirtæki ársins og Dominos Menntasproti ársins. Starfsafl óskar báðum þessum fyrirtækjum og starfsfólki þess hjartanlega til hamingu.  Bæði þessi fyrirtæki hafa sótt árlega um styrki til sjóðsins og nýtt sér það bakland sem sjóðurinn er þegar kemur að fræðslu fyrirtækja. 

Að Menntadegi atvinnulífsins standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Myndin er fengin að láni af vef SA.