Íshellirinn fær verðlaun SAF

Samtök ferðaþjónustunnar afhenda árlega nýsköpunarverðlaun fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar.  Verðlaunin voru afhent í fyrradag.

Fjölgun ferðafólks á Íslandi hefur verið mikil síðustu misserin og við þær aðstæður er sérstaklega mikilvægt að horfa á hvernig hægt er bjóða fjölbreyttari afþreyingu og nýjar ferðavörur. Mikilvægur þáttur er einnig dreifing ferðafólks víðar um landið og auknir möguleikar ferðaþjónustuaðila til að efla heilsársþjónustu og þar með auka framlegð greinarinnar.

Nýsköpunarverðlaunum SAF er ætlað að hvetja frumkvöðla landsins til dáða í ferðaþjónustu. Þetta er í tólfta sinn sem SAF veita nýsköpunarverðlaun samstakanna en þetta árið bárust 18 tilnefningar í samkeppninni um verðlaunin. Tilnefningarnar voru af ólíkum toga og því skemmtilegt verkefni sem dómnefnd þurfti að takast á við. Dómnefndina skipuðu María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og formaður dómnefndar, Þóra Björk Þórhallsdóttir, félagsmaður í SAF og Kristín Sóley Björnsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Það verkefni sem hlýtur verðlaunin í ár er afar metnaðarfullt, einstakt á heimsvísu og mikil lyftistöng fyrir ferðaþjónustuna á Vesturlandi sem og landinu öllu. Íshellirinn á Langjökli öðru nafni Into the Glacier er handhafi nýsköpunarverðlauna SAF árið 2015.

Sigurður Skarphéðinsson, framkvæmdastjóri Into the Glacier, segir nýsköpunarverðlaun SAF vera mikla hvatningu fyrir starfsemi fyrirtækisins og eins fyrir starfsmenn fyrirtækisins til að halda áfram að byggja upp þetta spennandi fyrirtæki á einu áhugaverðasta svæði á Íslandi í dag – Vesturlandinu.

„Frá opnun ísganganna hefur gengið farið fram úr björtustu vonum og gestir verið virkilega ánægðir með upplifunina á Langjökli,“ segir Sigurður. „Into the Glacier hefur nú þegar tekið á móti 20.000 gestum og enn er mikil ásókn í ferðir. Til að koma á móts við kröfur ferðamanna og ferðaþjónustufyrirtækja er stefnt að því að hafa opið alla daga, allt árið um kring og fjölga jafnframt brottförum næsta sumar. Von er á nýjum jökla-trukki sem verður tekinn í notkun fyrir næsta sumar. Tilkoma nýja trukksins mun hjálpa fyrirtækinu að þjónusta fleiri hópa og auka enn frekar sætaframboð.“

Heimild og texti: Frétt SAF

20151111_181758sm

Frá afhendingu nýsköpunarverðlaun SAF, Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, Sigurður Skarphéðinsson, frkv.stj. Into the Glacier og Grímur Sæmundsen, formaður SAF. Mynd Starfsafl.