Nám fyrir hótelþernur hafið

Í byrjun nóvember hófst nám fyrir þernur í umsjón IÐUNNAR fræðsluseturs. Námið hefur verið í mótun undanfarna 3 mánuði í nánu samstarfi Starfsafls fræðslusjóðs, Eflingar stéttarfélags, Samtaka ferðaþjónustunnar, IÐUNNAR og hótelanna Icelandair Hotels og Center Hotels. Mjög mikilvægt var að hafa fulltrúa hótelanna með frá byrjun þannig að námið henti þörfum markhópsins vel. Tilraunakennsla í náminu fór af stað í byrjun nóvember og tekur 30 kennslustundir (20 klst). Á námskránni er hópefli, skyndihjálp, líkamsbeiting, samskipti, herbergisþrif og fleira. Seinni hluti námsins, aftur 30 kennslustundir, fer af stað eftir áramót.  Námið fer fram á ensku en fyrirhugað er að kenna á fleiri tungumálum ef þörf krefur.

Það voru áhugasamir starfsmenn Icelandair Hotels og Center Hotels sem mættu í sal á Hotel Natura í byrjun nóvember en alls eru 16 þernur skráðar til leiks.  Starfsafl fagnar þessu námsúrræði og væntir þess að það skili starfsmönnum meira öryggi í starfi og hótelgestum enn betri þjónustu.

Að lokinni tilraunakennslu verður farið yfir námskrána aftur og síðan verður námið boðið öllum hótelum og gistiheimilum sem hafa áhuga.

20151104_140911sm

Áhugasamar þernur í upphafi námskeiðs. Mynd Starfsafl.