Farfuglar fá fræðslustjóra að láni

Í gær undirrituðu fulltrúar tveggja fræðslusjóða samning við Farfugla ses í Reykjavík um að lána fyrirtækinu fræðslustjóra. Sjóðirnir eru Starfsafl og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks. Margrét Reynisdóttir frá Gerum betur ehf er fræðslustjóri að láni. Fræðslustjóranum er ætlað að aðstoða fyrirtækið við að kortleggja hæfni og þjálfunarþörf starfsmanna fyrirtæksins.

Farfuglar Reykjavík reka gistiheimili á þrem stöðum í Reykjavík auk bókunarskrifstofu fyrir aðildarheimili Farfugla. Starfsemin hefur aukist mikið á síðustu árum í takt við aukinn straum ferðamanna til landsins. Fyrirtækið hefur því vaxið ört á undanförnum árum og vill nú færa fræðslu starfsmanna í markvissan búning í takt við aukin verkefni og væntanlega aukinn vöxt.  Starfsmenn fyrirtækisins eru rúmlega 70, þar af eru félagsmenn með aðild að Starfsafli um 25.

Farfuglar_undirskr_FAL_1275

Frá undirskrift samnings í gær, f.v. Sigríður Ólafsdóttir (Farfuglar), Margrét Reynisdóttir, fræðslustjóri að láni, Selma Kristjánsdóttir (SVS) og Sveinn Aðalsteinsson (Starfsafl).