Hlaðbær Colas styrkt um 1,3 milljónir

Í byrjun mánaðarins veitti Starfsafl Malbikunarstöðinni Hlaðbær Colas hf. 1,3 milljónir í styrk vegna námskeiða fyrir starfsfólk. Styrkupphæðin náði til 69 starfsmanna fyrirtækisins.

Þau námskeið sem styrkt voru eru meðal annars íslenska, viðgerðir og viðhald, öryggismál, merking vinnusvæða, frumnámskeið og kerrunámskeið. Þá var veittur styrkur vegna meiraprófs en slíkur styrkur getur numið allt að 300.000,- kr. fyrir einstakling.

Allt eru þetta námskeið sem eru mikilvæg fyrir rekstur fyrirtækisins og ekki síst mikilvægt fyrir starfsfólk að geta viðhaldið þekkingu og aflað sér nýrrar færni í starfi. Þá er mikilvægt að geta sótt um styrk til sjóðsins en reglur hans má kynna sér á vefsíðu Starfsafls, sjá hér.

Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas hf. var stofnuð í janúar 1987. Fyrirtækið býður upp á fyrsta flokks þjónustu varðandi allt sem við kemur malbikun og gatnaframkvæmdum almennt. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að aðstoða viðskiptavini og veita þeim faglega ráðgjöf varðandi verkefni og úrbætur, hvort sem það er fyrir einstaklinga, húsfélög, fyrirtæki, verktaka eða sveitarfélög, segir á vefsíðu fyrirtækisins.

Nánari upplýsingar um styrki til fyrirtækja eru veittir á skrifstofu Starfsafls.

* Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar, VSFK eða Hlífar, geta sótt um í sjóðinn. Hámark veittra styrkja á almanaksári er 3 milljónir króna.

Myndin er fengin að láni.