Fræðslustjóra að láni til Íslenska Gámafélagsins

Í gær undirrituðu 5 fræðslusjóðir og setur samning við Íslenska Gámafélagið að lána fyrirtækinu fræðslustjóra. Sjóðirnir eru Starfsafl, Landsmennt, SVS og VSSÍ ásamt IÐUNNI fræðslusetri. Birna Jakobsdóttir ráðgjafi hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum er fræðslustjóri að láni og mun hún vinna þarfagreiningu og kortleggja hæfni og þjálfunarþörf starfsmanna fyrirtækisins.

Íslenska gámafélagið var stofnað árið 1999 og býður uppá alhliða umhverfisþjónustu til fyrirtækja, sveitarfélaga og einstaklinga. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Gufunesinu í Reykjavík en félagið er með starfsstöðvar vítt og dreift um landið. Hjá Íslenska gámafélaginu starfa 250 manns og er óhætt að segja að starfsmannahópurinn sé fjölbreyttur en þar sameinast 10 þjóðir á öllum aldri.
Mannauðsstefna fyrirtækisins sækir stuðning í heimspeki fisksins, Fish Philosophy, sem lýsir vilja fyrirtækisins til að vera framúrskarandi vinnustaður, þar sem metnaðarfullt starf er unnið af jákvæðu, samstilltu og ábyrgu fólki í anda jafnræðis. Þess má geta að Íslenska gámafélagið er með gæðavottun ISO 14001 og ISO 9001 ásamt því að vera fyrst fyrirtækja á Íslandi að hljóta Jafnlaunavottun VR.

 

IMG_1086