Fræðsluaðilar

Gott að vita fyrir þá sem taka að sér fræðslu á vinnustöðum eða bjóða upp á námskeið fyrir einstaklinga og hópa.  

Fjöldi fræðsluaðila, ráðgjafa og annarra sérfræðinga starfar sjálfstætt við fræðslu og þjálfun – innan fyrirtækja, við markþjálfun eða kennslu til einstaklinga, til dæmis í tungumálum. Þessir aðilar eru oft ekki tengdir viðurkenndum fræðsluaðilum eða formlegum skólum, en gegna engu að síður afar mikilvægu hlutverki í símenntun og miðlun þekkingar.

Við hjá Starfsafli fögnum því þegar slíkt fagfólk deilir sérþekkingu sinni og tekur virkan þátt í að efla hæfni einstaklinga og starfsmanna fyrirtækja. Í mörgum tilfellum er sú fræðsla sem þessir aðilar veita styrkhæf hjá sjóðnum – hvort sem hún fer fram innan fyrirtækja eða beinist að einstaklingum.

Það er þó afar mikilvægt að kynna sér þær reglur og viðmið sem gilda – bæði varðandi uppsetningu og innihald námskeiða, hæfni, þekkingu og reynslu fræðsluaðila, sem og gerð reikninga og skilyrði styrkhæfni, svo fátt eitt sé nefnt – til þess að ferlið gangi hnökralaust fyrir sig fyrir alla aðila, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki.

Við hvetjum alla sem starfa á þessum vettvangi til að kynna sér það efni sem hér er sett fram og hika ekki við að hafa samband við skrifstofu Starfsafls óski þeir eftir frekari upplýsingum.

Skilgreining á starfsnámi:

Starfsafl styðst við flokkun fræðsluaðila við skilgreiningu á því fræðsla fellur undir almennt starfsnám sbr. eftirfarandi: Afmarkaður hluti náms sem fylgir fyrirfram ákveðinni áætlun eða skilgreiningu og lýkur yfirleitt með vottun á frammistöðu eða annars konar staðfestingu

Skilgreining og uppbygging fræðslu
Hugtakið fræðsla er notað til einföldunar á þessari síðu yfir allt nám, námskeið og erindi, hvort heldur hún fari fram innan eða utan vinnutaða eða í gegnum fjarfundabúnað eða upptökur.

Uppbygging fræðslu:

  1. Hafa skýrt afmarkað upphaf og lok
  2. Hafa skilgreind markmið og efnistök
  3. Vera kennt af leiðbeinanda sem býr yfir viðeigandi hæfni og þekkingu

Að fræðsla uppfylli þessi skilyrði er nauðsynlegt, en ekki eitt og sér nægjanlegt til að tryggja styrkhæfi.

Í þessu felst að hægt sé að nálgast upplýsingar á heimasíðu fræðsluaðila eða á öðrum tilgreindum vefmiðli sem og upplýsingar um menntun, hæfni og reynslu leiðbeinanda.

Viðmið um leiðbeinendur

Almennt er gert ráð fyrir því að þeir sem annast fræðslu fyrir einstaklinga og vinnustaði búi yfir viðeigandi menntun, hæfni og reynslu sem hæfir því efni sem boðið er upp á.  

Leiðbeinendur skulu hafa faglega þekkingu og færni á viðkomandi sviði og geta sýnt fram á hæfni sína með viðeigandi gögnum, s.s. námsferli, starfsreynslu eða öðrum hæfnisvottunum, sé kallað eftir því. Athugið sérstaklega auknar kröfur til þeirra sem kenna íslensku.

Upplýsingar um leiðbeinanda skulu vera skýrar og aðgengilegar fyrir þátttakendur og sjóðinn, og vera hluti af umsóknarferli fyrirtækja til sjóðsins á www.attin.is: almennar upplýsingar um nám/námskeið.

Vegna íslenskukennslu

Á við um allt nám, námskeið og einkakennslu. Aðgangur að öppum í íslensku eru einnig styrkhæf falli þau að viðmiðum sjóðsins um starfstengt nám.

Leiðbeinandi íslenskunámskeiða, íslenskunáms eða einkakennslu sem starfar annarsstaðar en hjá viðurkenndum fræðsluaðila samþykktum af Mennta- og barnamálaráðuneytinu eða Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu,  verður að búa yfir neðangreindum hæfnikröfum og reynslu svo þjónusta viðkomandi teljist styrkhæf af starfsmenntasjóðum

Aðrar hæfnikröfur:

  • Marktæk þekking á kennslu tungumála
  • Reynsla af kennslu frá viðurkenndum fræðsluaðila
  • Lokið námi á háskólastigi
  • Fagleg vinnubrögð og metnaður til að skila góðri vinnu

Tilgreindar hæfnikröfur leiðbeinanda eiga einnig við um annað tungumálnám

Umsókn er hafnað ef ofangreindar kröfur um viðmið, hæfi og hæfni eru ekki fyrir hendi.  

Vegna náms í í fegrunarfræðum

Nám sem tekið er á Íslandi

Nám í hverskonar fegrunarfræðum sem tekið er hérlendis og telst ekki til löggildra iðngreina þarf að falla að viðmiðum sjóðsins um starfstengt nám og vera tekið hjá skólum eða snyrtistofum með starfsleyfi til að nemendur geti sótt um starfsmenntastyrk vegna námsins.

Vörupakkar og annað námsefni sem innifalið er í námskeiðsgjaldi, er ekki styrkt.  Því er aðeins tekið við reikningum sem sýna sundurliðun á kostnaði. 

Sé námið tekið hjá skóla eða snyrtistofu sem ekki er með starfsleyfi geta nemendur aðeins sótt um lífsleiknistyrk.

Nám sem kennt er erlendis

Allt nám í fegrunarfræðum sem kennt er erlendis er ekki styrkt sem starfsmennt en nemendur geta sótt um lífsleiknistyrk vegna námsins.

Skilgreiningar á fegrunarfræðum

Hér er notast við orðið fegrunarfræði þar sem orðið snyrtifræði nær yfir löggilda iðngrein.  Þessi regla nær yfir allt annað nám sem telst til fegrunarfræða en hefur ekki hlotið löggildingu hér á landi, samanber eftirfarandi upptalningu:

  1. Förðun
  2. Naglalist, þ.m.t. ásetning gervinagla
  3. Augnaháraásetningar, augnaháralengingar
  4. Varanleg förðun á augabrúnir

Athugið að listann er mögulega ekki tæmandi.

Skólar sem kenna fegrunarfræði þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði svo það nám sem þeir bjóða sé styrkt sem starfsnám

  • Hafa starfsleyfi og texta sem tiltekur það sýnilegan á vefsíðu og geta framvísað skírteini sé þess óskað.
  • Hafa alla reikninga sundurliðaða þar sem  skýrt kemur fram kostnaður vegna náms og varnings.
  • Uppfylla skilyrði sjóðsins um starfsnám,
  • Veita nemanda diplómu / viðurkenningarskjal í lok náms.

 Hægt er að sækja um starfsmenntastyrk vegna náms hjá eftirfarandi fræðsluaðilum:

  • Reykjavík Makeup School.
  • Glam
  • Make up studíó Hörpu Kára
  • Deja Vu Nails Salon & Academy
  • Lilly nails Iceland
  • Magnetic
  • Shimmer
  • Crytal nails

Skólar sem uppfylla skilyrði en eru ekki á listanum hér að ofan geta haft samband við skrifstofu Starfsafls.

Vegna útgefinna reikninga

Reikningar þurfa að vera sundurliðaðir ef í þeim felst kostnaður umfram beina fræðslu. Þetta er nauðsynlegt svo hægt sé að meta hvort sá kostnaður sé styrkhæfur.

Hvað er styrkt:

  • Starfstengd fræðsla sem fram fer fyrir hóp starfsfólks eða einstakling
  • Starfstengd fræðsla sem fram fer á íslenskum vefsíðum 
  • Tungumálanám
  • Prófa- og skírteinisgjöld sem órjúfanlegur hluti af námi /námslokum
  • Starfstengd markþjálfun sem nemur að hámarki 12 tímum innan almanaksárs.  Með umsókn þurfa að fylgja upplýsingar um markþjálfann en skilyrt er að markþjálfinn hafi lokið námi í markþjálfun frá viðurkenndum skóla.  Þá verður fjöldi tíma að koma fram á reikningi. 
  • Túlkaþjónusta á starfstengdu námskeiði fyrir hóp starfsfólks á vinnustað þar sem greitt er fyrir hvorutveggja 

Hvað er ekki styrkt:

  • Ráðgjöf eða handleiðsla 
  • Túlkaþjónusta fyrir einstaklinga (t.d. í prófum eða á starfstengdum námskeiðum utan vinnustaðar – maður á mann).
  • Ferðakostnaður sbr. akstur eða flug
  • Gisting og uppihald
  • Veitingar á námskeiðum
  • Gjald eða kostnaður sem til fellur vegna innleiðingar eða utanumhalds fræðslu
  • Sýnatökur, kannanir og þarfagreiningar
  • Vörupakkar sbr. nám í fegrunarfræðum
  • Vinnustofur sem snúa að stefnumótun, framtíðarsýn eða innri greiningu á starfsemi viðkomandi vinnustaðar falla ekki undir skilgreiningu formlegrar fræðslu eða snámskeiðahalds. Í slíkum tilvikum er að jafnaði um að ræða vinnu sem miðar að því að meta, skilgreina og móta innri starfsemi, verklag eða stefnu, fremur en að miðla þekkingu, þjálfa færni eða stuðla að hæfniþróun starfsmanna með formbundnum hætti.

*Athugið að listarnir er mögulega ekki tæmandi.

Skilyrði og fyrirvarar

Starfsafl áskilur sér rétt til að taka til skoðunar og kalla eftir nánari upplýsingum um:

  • efnisinnihald námskeiða
  • kostnaðaráætlanir
  • hæfi leiðbeinenda

Starfsafl áskilur sér jafnframt rétt til að gera athugasemdir við eða takmarka styrkveitingu ef:

  • verðlagning náms telst ekki í samræmi við viðmið á markaði
  • skilgreindur undirbúningstími er umfram það sem eðlilegt má teljast
  • ef vísbendingar eru um að verðlagning feli í sér þróunarkostnað sem telst umfram eðlileg mörk

Að gefnu tilefni áskilur Starfsafl sér rétt til að hafna umsóknum.