Flatey Pizza fær Fræðslustjóra að láni

Í undirritun er samningur um verkefnið Fræðslustjóri að láni við Flatey pizza. Auk Starfsafls kemur Landsmennt að verkefninu og greiðir hvor sjóður fyrir sig hlutfallslega fyrir félagsmenn sinna stéttafélaga.  

Hjá Flatey pizza starfa um 100 einstaklingar og þar af er meirihluti ungt fólk í hlutastörfum með námi.  Starfsstöðvar fyrirtækisins eru fimm, fjórar í Reykjavík og  ein á Selfossi.

Í umsókn fyrirtækisins segir að stjórnendur þess vilji fara af stað í verkefnið til að efla starfsfólkið enda hafi það sýnt sig að því meiri áherslu sem lögð sé á staðlaða þjálfun starfsfólks því ánægðari sé það í vinnunni. Þá segir jafnframt að stefna og framtíðarsýn fyrirtækisins sé að bjóða upp á hágæða upplifun á sem hagstæðastan máta. Áhersla sé lögð á einföld gæða hráefni og góða þjónustu.

Þá segir jafnframt að fyrirtækið leitast við að vera frammúrskarandi í veitingaiðnaðinum og þar séu heilbriðgs-, starfsmanna- og gæðamál efst á blaði. Fyrirtækið vilji efla starfsfólk og gefa því réttu verkfærin til þess að sinna störfum sínum á sem bestan máta, gefa öllu starfsfólki tækifæri við hæfi og leyfa því að vaxa með fyrirtækinu.

Fyrirtækið vilji efla starfsfólk og gefa því réttu verkfærin til þess að sinna störfum sínum á sem bestan máta, gefa öllu starfsfólki tækifæri við hæfi og leyfa því að vaxa með fyrirtækinu

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.

Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Ráðgjafi verkefnisins er Eva Karen hjá Effect ráðgjöf en hún er margreynd á þessu sviði og fyrirtækið vel að því komið að fá hana til liðs við sig. 

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin af fésbókarsíðu fyrirtækisins.

Um Starfsafl:

Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.

Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.