Engin lognmolla hjá Starfsafli

Það var engin lognmolla hjá Starfsafli í febrúar frekar en aðra mánuði ársins og fögnum við því. Við viljum sjá vöxt og við viljum sjá fyrirtæki leita til sjóðsins, þá er Starfsafl að skila sínu.

Í febrúar bárust alls 40 umsóknir frá 25 fyrirtækjum. Styrkloforð voru alls 4.534.312 og þar af er búið að greiða 3.782.044,- Einhverjar umsóknir hafa ekki fengið afgreiðslu þar sem vantað hefur fylgigögn.

Á bak við þessar tölur eru tæplega 700 einstaklingar, starfsmenn fyrirtækja sem hafa notið góðs af fræðslu á vegum fyrirtækisins og fyrirtækið nýtur góðs af aukinni þekkingu og hæfni sinna starfsmanna.  Þetta er eins og segir á góðri íslensku, win win. 

Ef litið er nánar á efnisþætti umsókna þá var ein umsókn vegna Fræðslustjóra að láni, 3 vegna eigin fræðslu, 5 vegna skyndihjálpar og 3 íslenskukennslu, svo dæmi séu tekin.

9 umsóknir voru vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra en í lögum segir að bílstjóri sem ekur stórri bifreið í ökuréttindaflokki D1 og D til farþegaflutninga í atvinnuskyni og í flokki C1 og C til vöruflutninga í atvinnuskyni skuli sækja 35 kennslustunda endurmenntun á 5 ára fresti. Fjöldi nemenda á bak við þær umsóknir sem bárust í febrúar vegna endurmenntunarinnar eru 283 talsins, kennslustundir 108 og heildarstyrkupphæð 1.933.373,-

Fyrirtæki með starfsfólk innan Flóabandalagsins geta sótt til sjóðsins og hvetur Starfsafl fyrirtæki til að hafa samband og kanna hvaða leiðir eru mögulegar. Þá má finna nánari upplýsingar á vef Starfsafls www.starfsafl.is eða í síma 5107550