Íslenskir fjallaleiðsögumenn fá Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Íslenska Fjallaleiðsögumenn.

Fyrirtækið var stofnað árið 1994 og var markmið þeirra sem stóðu að stofnun þess að fara ótroðnar slóðir með innlenda sem erlenda ferðamenn, opna augu fólks fyrir fjallaferðum, stuðla að verndun viðkvæmrar náttúru norðurslóða og að auka gæði og fagmennsku í leiðsögn, eins og segir á vefsíðu fyrirtækisins. Þá segir ennfremur að trúir þessum markmiðum, hafi fyrirrtækið staðið í farabroddi íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja í þróun nýrra ferða, umhverfismálum, menntun starfsmanna og öryggismálum.

Hjá fyrirtækinu starfa um 100 starfsmenn í ýmsum störfum, á skrifstofu við sölu, tilboðsgerð og þjónustu auk leiðsögumanna.

Tveir sjóðir styrkja verkefnið, Starfsafl og SVS, en sá síðarnefndi leiðir verkefnið.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Mímir Símenntun sér um hlut ráðgjafans að þessu sinni og ráðgjafi verkefnisins er Inga Jóna Þórisdóttir.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550