Ásókn í Fræðslustjóra að láni aldrei verið meiri

Á fyrstu 6 mánuðum ársins hafa sjóðnum borist 14 umsóknir vegna Fræðslustjóra að láni og hafa jafnmargir samningar verið undirritaðir, þar af fjórir samningar vegna umsókna frá 2017. Samanlagt hafa því verið teknar til skoðunar 18 umsóknir það sem af er ári.

Það er gríðarleg aukning og jafngildir þeim fjölda samninga sem alla jafna er undirritaður á ársgrundvelli og verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr seinni hluta ársins.

Vinnu er lokið eða langt á veg komin í flestum tilfellum en tvo verkefni fara ekki af stað fyrr en í haust vegna sumarfría starfsfólks.

Þau verkefni sem hér um ræðir ná til rétt um 1000 starfsmanna sem tilheyra sjóðnum og framlag Starfsafls vegna þeirra hátt í 6 milljónir króna. Þær tölur jafngilda, eins og fjöldi samninga, þeim tölum sem við erum að sjá á ársgrundvelli.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Frá árinu 2007 hefur Starfsafl átt aðkomu að  109 samningum vegna rúmlega 8830 starfsmanna. Framlag Starfsafls á tímabilinu er rétt undir 40 milljónum króna eða um 4500 krónur á hvern félagsmenn að meðaltali, sem verkefnin hafa náð til.  Þeim krónum hefur verið vel varið og vafalítið náð góðri ávöxtun í formi aukinnar þekkingar.

Þau fyrirtæki sem sótt hafa um Fræðslustjóra að láni hafa verið af öllu tagi, svo sem veitingastaðir, hótel, fiskvinnslur, heildsölur, bílaleigur og verksmiðjur, svo dæmi séu tekin. Eitt eiga þessir vinnustaðir sameiginlegt og það er viljinn til að hlúa að mannauð fyrirtækisins og taka stefnumiðuð skref til framtíðar, þar sem markmið fyrirtækisins og velferð starfsfólks eru leiðarstefið.