Askja fær Fræðslustjóra að láni

Nýverið var undirritaður samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við bílaumboðið Öskju. Þar starfa um 100 einstaklingar og Starfsafl, SVS og Iðan styrkja verkefnið að fullu.

Bílaumboðið Askja er þjónustufyrirtæki sem sérhæfir sig í sölu og þjónustu á bifreiðum og er til húsa að Krókhálsi 11, Reykjavík. Þar er meðal annars að finna  bílaverkstæði, varahlutaþjónustu og  sýningarsal fyrir bifreiðasöluna. Hjá fyrirtækinu starfa rúmlega 100 manns og markmið fyrirtækisins er að vera í fararbroddi hvað varðar þjónustu til viðskiptavina og markaðssetningu þeirrar vöru sem fyrirtækið selur og þjónustar.

Á vefsíðu fyrirtækisins segir að fyrirtækið leggur metnað sinn í að veita starfsfólki sínu þann stuðning og umhverfi sem til þarf til að því sé kleift að veita viðskiptavinum fyrirtækisins afburðaþjónustu. Þá segir ennfremur að Askja vill hafa innan sinna raða heiðarlegt, vel þjálfað og þjónustulipurt starfsfólk sem ávallt gerir sitt besta fyrir þá sem koma að málum, hvort sem það eru viðskiptavinir, samstarfsfólk eða birgjar. Gildi Öskju eru metnaður, fagmennska, heiðarleiki og gleði.

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Íris Bergþórsdóttir ráðgjafi hjá Vexti Ráðgjöf mun stýra verkefninu og vera í hlutverki fræðslustjórans en ráðgjafar hjá Vexti ráðgjöf hafa stýrt fjölda fræðslustjóraverkefna fyrir sjóðina og gert það vel.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greining og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks. 

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550