Ísfell fær fræðslustjóra að láni
Fræðslustjóri að láni er góð leið fyrir fyrirtæki til að koma fræðslu- og starfsmenntamálum í farveg, fá aðra sýn á fræðslustefnu fyrirtækisins, velta við steinum og horfa til framtíðar. Fyrirtæki þurfa ekki að leggja út fé vegna verkefnisins þar sem það er að fullu styrkt og dregst frá rétti fyrirtækis.
Um miðjan mánuð var undirritaður samningur um verkefnið Fræðslustjóri að láni við Ísfell ehf. Auk Starfsafls koma Landsmennt og Iðan fræðslusetur að verkefninu og greiðir hver sjóður fyrir sig hlutfallslega fyrir félagsmenn sinna stéttafélaga. Landsmennt er sá sjóður sem á flesta félagsmenn og leiðir því vinnuna.
Ísfell er leiðandi í hönnun, þróun og sölu á veiðarfærum, sölu á útgerðar-, fiskeldis-, björgunar-, hífi- og fallvarnarlausnum og ýmsum rekstrarvörum. Höfuðstöðvar ásamt aðallager fyrir allar starfstöðvar fyrirtækisins á Íslandi eru í Hafnarfirði en þess utan rekur fyrirtækið 8 þjónustu- og framleiðslueiningar um land allt.
Á vefsíðu fyrirtækisins segir að þjónusta Ísfells einkennist af framúrskarandi starfsfólki með víðtæka reynslu og sérhæfða þekkingu, áreiðanleika í viðskiptum og sölu á úrvali af útgerðar- og fiskeldisvörum, björgunarvörum, bindivörum og ýmsum rekstrarvörum.
Í umsókn fyrirtækisins segir að fyrirtækið vilji fara af stað í verkefnið til að auka fræðslu og þekkingu starfsfólks sem þá til lengri tíma litið auki starfsánægju.
Í umsókn fyrirtækisins segir að fyrirtækið vilji fara af stað í verkefnið til að auka fræðslu og þekkingu starfsfólks sem þá til lengri tíma litið auki starfsánægju.
Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins.
Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Ráðgjafi verkefnisins er Ragnar Matthíasson hjá RM ráðgjöf.
Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5181850
Myndin er fengin að láni af fésbókarsíðu fyrirtækisins.
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er starfsmenntasjóður Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.