Uppsafnaður 2ja ára styrkur
Á fundi stjórnar Starfsafls sem haldinn var í gær var samþykkt að einstaklingur geti átt uppsafnaðan rétt til tveggja ára eins og til þriggja ára. Tekur sú breyting á reglum gildi þann 1. janúar nk.
Það er með mikilli ánægju sem þessi breyting er gerð á reglum sjóðsins en stjórn sjóðsins leitast við að mæta þörfum þeirra félagsmanna sem vilja bæta þekkingu, ná í aukin réttindi og mæta morgundeginum með þá hæfni sem nauðsynleg er. Þessi breyting mun vonandi verða til þess að enn fleiri geti sótt og greitt fyrir nám eða námskeið sem teljast til starfsmenntunar.
Ný regla hljóðar þá samanber eftirfarandi;
Félagsmenn sem ekki hafa nýtt sér rétt sinn síðustu tvö ár eiga rétt á styrk allt að kr. 260,000,- eða síðustu þrjú ár eiga rétt á allt að kr. 390.000,- fyrir eitt samfellt nám eða námskeið samkvæmt nánari reglum sjóðsins. Uppsafnaður réttur skerðist ekki hafi félagsmaður fengið styrk undir kr. 30.000 á tíma uppsöfnunar. Sá styrkur kæmi þó til frádráttar.
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.