Stjörnugrís ehf fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Stjörnugrís ehf.  

Upphafið að rekstri fyrirtækisins má rekja aftur til til ársins 1935 þegar fyrstu gylturnar voru keyptar. Þær voru fjórar að tölu en eru 1.500 í dag. Á vefsíðu fyrirtækisins segir að búskapurinn hafi verið upphaflega í Eskihlíð við Miklatorg en er í dag að Vallá á Kjalarnesi.

Stjörnugrís rekur einnig svínabú í Saltvík á Kjalarnesi, Melum í Melasveit, Sléttabóli á Skeiðum og að Bjarnarstöðum í Grímsnesi. Lengi vel var öll slátrun keypt að en þar kom að hagkvæmara reyndist að hafa hana innan fyrirtækisins. Fullkomið sláturhús er nú í Saltvík og nýjasta viðbótin er kjötvinnsla, sem nýlega tók til starfa.

Einnig segir á vefsíðunni að neytendur hafi tekið vel á móti framleiðsluvörum frá Stjörnugrís enda vel til vandað, frábært ferskt hráefni, fullkomnustu vélar sem völ er á og síðast en ekki síst góðir fagmenn og starfsfólk, sem er einstaklega áhugasamt um að gera vel. Til marks um það hefur fyrirtækið hlotið viðurkenningu sem fyrirmyndarfyrirtæki árin 2013 til 2017, að báðum árum meðtöldum. 

Með því að fá Fræðslustjóra að láni er verið að formfesta enn frekar fræðslu starfsmanna og móta stefnu til næstu ára sem tekur mið af þörfum stjórnenda og starfsfólks samhliða stefnu fyrirtækisins.

Hjá fyrirtækin starfa um 90 einstaklingar sem búa yfir fjölþættri þekkingu og reynslu.  Velflestir eru innan þeirra félaga sem hlut eiga í Starfsafli og er Starfsafl því eini sjóðurinn sem kemur að verkefninu. 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Eva Karen Þórðardóttir er ráðgjafi verkefnisins og er þetta hennar annað verkefni sem hún tekur fyrir Starfsafl. 

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er í eigu fyrirtækisins.