Ístak fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Ístak hf.

Á vefsíðu fyrirtækisins stendur að stefna þess sé að vera leiðandi verktakafyrirtæki á Íslandi sem mætir þörfum markaðarins fyrir framkvæmdir af ýmsum toga.  Þá segir ennfremur að fyrirmyndar verkskipulag, aðstaða og gott starfsfólk sem býr að framúrskarandi þekkingu og reynslu gerir fyrirtækinu kleift að standast við þau markmið og stefnu sem stjórnendur fyrirtækisins setja sér. Lögð er áhersla á gott samstarf milli starfsfólks, verktaka og verkkaupa þannig að verkefnum sé skilað á tilsettum tíma og fjárhagsáætlunum sé mætt.

Hjá ÍSTAKI starfa um 360 manns sem búa yfir fjölþættri þekkingu og reynslu. Með verkefninu er verið að rýna enn frekar í fræðsluþarfir starfsmanna fyrirtækisins og forma enn frekar það öfluga fræðslustarf sem fyrir er.

Fjórir sjóðir styrkja verkefnið; Starfsafl sem leiðir verkefnið, SVS, Samband stjórnendafélaga og Iðan. 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Ragnar Matthíasson hjá RM Ráðgjöf er ráðgjafi verkefnisins en hann hefur mikla og góða reynslu af verkefnum af þessu tagi og hefur stýrt fjölda minni sem stærri verkefna á vegum sjóðanna.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550