Stefnumótun í framhaldsfræðslu
Mánudaginn 7. nóvember, stóð Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fyrir vinnustofu um stefnumótun í framhaldsfræðslu. Vinnustofan fór fram á Hilton Nordica og er liður í endurskoðun ráðuneytisins á lögum um framhaldsfræðslu.
Guðmundur I. Guðbrandsson félags-og vinnumarkaðsráðherra setti fundinn og lagði hann áherslu á það í ávarpi sínu að framhaldsfræðslan ætti að gefa fólki tækin og tólin til að lifa og starfa í lýðræðissamfélagi sem er á fleygiferð inn í framtíðina.
“Framhaldsfræðslan getur byggt upp þennan grunn með námi, náms- og starfsráðgjöf og mati á raunfærni þannig að fólk geti haldið áfram í námi eða fengið alls konar störf og skapað þannig verðmæti fyrir sig og samfélagið. En til að svo verði þurfum við að taka aðeins til í kerfinu og gera því kleift að ná til fleiri með hagnýtu og eftirsóknarverðum tilboðum sem nýtast fólki áfram og geta mætt öllum þeim nýjungunum sem við vitum að eru framundan,, sagði ráðherra ennfemur.
Framhaldsfræðslu er ætlað að veita fólki með stutta skólagöngu ný tækifæri til náms og starfa og markmið vinnustofunnar var að efna til umræðu meðal fulltrúa aðila vinnumarkaðarins, stofnana, félagasamtaka, fræðsluaðila og ekki sýst notendanna sjálfra sem hafa mikilvægustu innsýnina í kerfið og hvernig best er að móta það til framtíðar.
Á vinnustofuna voru boðaðir fulltrúar þeirra sem koma að framhaldsfræðslu hér á landi og má þar nefna félög, stjórnvöld, fræðsluaðila, starfsmenntasjóði atvinnulíf og nemendur.
Á vinnustofuna voru boðaðir fulltrúar þeirra sem koma að framhaldsfræðslu hér á landi og má þar nefna félög, stjórnvöld, fræðsluaðila, starfsmenntasjóði atvinnulíf og nemendur. Lisbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls, mætti fyrir hönd sjóðsins.
Þátttakendur ræddu saman í smærri hópum undir stjórn borðstjóra, skráðu niður hugmyndir og fluttu sig síðan á ný borð með nýju fólki þar sem unnið var áfram með tillögurnar. Undir lok vinnustofunnar var síðan kosið um hugmyndirnar.
Niðurstöður dagsins verða nú rýndar af starfshópi um heildarendurskoðun framhaldsfræðslunnar sem verið er að skipa. Þá mun ráðherra fela hópnum að meta stöðuna og móta drög að nýrri stefnu í málaflokknum sem felur meðal annars í sér heildarendurskoðun á lögum um framhaldsfræðslu.