Er þitt fyrirtæki með plan B ?
Fyrirtæki sem eru með skýra stefnu, markvissa fræðslu, þjálfun og starfsþróunaráætlanir, eiga auðveldara með að mæta breytingum, bæði þeim sem eru innan skipulagsheildarinnar sem og breytingar sem koma úr rekstrarumhverfinu. Þá má einnig gera ráð fyrir minni starfsmannaveltu, skipulagðara verklagi, bættri rekstrarafkomu og samkeppnisforskoti, svo eitthvað sé nefnt.
Í áhugaverðri meistararitgerð Ásrúnar Jóhannesdóttur; Fræðslustjóri að láni – Stjórnun starfsþróunar innan fyrirtækja, er verkefnið Fræðslustjóri að láni tekið til skoðunar og meðal annars rætt við stjórnendur fjögurra fyrirtækja, sem farið hafa í gegnum verkefnið. Allir láta þeir vel af því og eru birtar nokkrar tilvitnanir þess efnis;
“Við stöndum margfalt betur að vígi heldur en samkeppnisaðilinn, til dæmis þar sem við erum búin að þjálfa upp okkar fólk í því að við erum alltaf með næsta mann sem getur farið inn í starfið, við erum alltaf með plan B,,
Þessi einfalda setning dregur saman mikilvægi þess að hafa skýra stefnu og bjóða rétta fræðslu og þjálfun – á réttum tíma. Að hafa sannarlega plan B sem tekur til mannlega þáttarins í rekstrinum, að búa svo í haginn að starfsfólk hafi nauðsynlega þekkingu, hæfni og færni til að sinna störfum sínum og geti vaxið í starfi. Þar getur verkefnið Fræðslustjóri að láni komið sterkt inn en verkefnið byggist á að lána út mannauðsráðgjafa, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun, til fyrirtækja. Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins, dregur fram það sem vel er gert, greinir þarfir fyrirtækisins og samhæfir við önnur námskeið eða viðurkenndar fræðsluleiðir.
Í sömu ritgerð er að finna aðra tilvitnun þar sem segir eftirfarandi:
“Fyrirtæki sem er búið að fara í þetta og er nota þetta, þetta verkfæri og þessa starfsþróunaráætlun, það er að skila, ég er allavega sannfærð um það, er komið framar… í mannauðsstjórnun komið lengra, með betra utanumhald, veit meira í hvaða átt það er að stefna heldur en þeir sem eru ekki komnir á þennan stað, þeir eru bara aftar á merinni, ég er alveg sannfærð um það,,
Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið Fræðslustjóri að láni er bent á að hafa samband við skrifstofu Starfsafls.
Áhugasamir um áðurnefnda ritgerð geta kynnt sér hana hér