Verkfærakista ferðaþjónustunnar
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni og fagmennsku starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi. Á vefsíðu verkefnisins má finna fjölda verkfæra sem auðveldað getur fyrirtækjum að koma fræðslumálum í stefnumiðaðan farveg. Fyrirtæki í öðrum greinum atvinnulífsins geta sannarlega nýtt sér efnið að einhverju leyti.
Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér verkefnið betur er bent á heimasíðu þess, www.haefni.is
Hér er bein slóð inn á verkfærakistu verkefnisins en þar má finna meðal annars eftirfarandi:
- Fræðsla í ferðaþjónustu – Handbók og fylgiskjöl fyrir verkefnastjóra
- Þarfagreining fræðslu – Könnun til að meta þörf starfsmanna fyrir fræðslu og þjálfun
- Mælikvarðar árangurs fræðslu
- Fagorðalista ferðaþjónustunnar
Vefsíðan er sannkölluð verkfærakista og þar er búið að safna saman á einn stað margvíslegum tólum og tækjum fyrir þá stjórnendur sem vilja hafa starfsþróunar- og fræðslumál síns fyrirtækis í lagi.
Á vefsíðu Starfsafls má síðan lesa hvaða þættir það eru sem eru styrkhæfir en fyrirtæki sem greiða af starfsfólki til Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar, geta sótt um styrki vegna námskeiðahalds til Starfsafls. Starfsafl styrkir að öllu jöfnu fyrirtæki um 75% af kostnaði fyrir sína félagsmenn og geta fyrirtæki sótt um allt að þrjár milljónir króna á ári. Skilyrði er að sá starfsmaður (eða starfsmenn) sem sótt er um styrk vegna hafi verið starfandi hjá fyrirtækinu þegar námskeið fór fram, nafn hans og kennitala komi fram á reikningi (eða fylgiskjali) þar sem fyrirtækið er tilgreindur greiðandi og iðgjöld hafi borist viðkomandi stéttafélagi.
Athugið að ekki eru veittir styrkir vegna greiningu fræðsluþarfa sem fer fram með öðrum hætti en með Fræðslustjóra að láni og að ekki eru veittir styrkir vegna gjalds eða þess kostnaðar sem til fellur vegna innleiðingar eða utanumhalds fræðslu. Sjá reglur Starfsafls hér.