Útskrift frá Lyfjagerðarskóla Actavis
Í gær voru útskrifaðir 14 nemendur úr nýju starfsnámi, Lyfjagerðarskóla Actavis. Námið byggir á viðurkenndri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins (Lyfjagerðarskólinn) sem unnin var í samstarfi við Actavis og símenntunarmiðstöðina Framvegis.
Lyfjagerðarskóli Actavis og Framvegis – miðstöðvar símenntunar hóf göngu sína í september sl., en vinna við hönnun námsins hófst árið 2012. Um er að ræða 260 klukkustunda hagnýtt nám í lyfjagerð. Námið er vottað af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og hlaut tilraunakennsla styrk úr Fræðslusjóði en námskrárgerð var styrkt af Þróunarsjóði framhaldsfræðslu. Um er að ræða nýja námsleið í framhaldsfræðslu á Íslandi sem fjallað var um í Fréttablaði Eflingar í desember 2014.
Markmið námsins er að auka færni starfsfólks, með litla formlega menntun að baki og gera því kleift að þróast í starfi, sem og greiða fyrir aðgangi þess að frekara námi í samræmi við lög um framhaldsfræðslu. Starfsafl hefur styrkt námið fyrir sína félagsmenn.
Fyrstu fjórtán nemendurnir voru útskrifaðir við hátíðlega athöfn í gær. Af hálfu stjórnenda og nemenda kom fram mikil ánægja með námið og hafa mörg lokaverkefni nemenda þegar verið sett í framkvæmd innan fyrirtækisins. Innritun er þegar hafin fyrir næsta námsár og er mikill áhugi meðal almennra starfsmanna fyrirtækisins á náminu.
Starfsafl óskar útskriftarnemendum og Actavis til hamingju með glæsilegt nám!