Um 6 milljónir til fyrirtækja í október

Októbermánuður kom, sá og sigraði en greidd heildarstyrkfjárhæð var um 6 milljónir króna sem er hæsta upphæð sem greidd hefur verið í þeim mánuði sé litið til síðustu ára.

Það þarf oftar en ekki meira en svo að eitt fyrirtæki fari í tiltekt og sendi inn alla reikninga síðastliðna 12 mánuði til að tölurnar breytist á milli ára. Það er vel en á reyndar ekki við í þessu tilfelli heldur var um að ræða fyrirtæki sem sendi hluta starfsfólks á mjög sérhæft en starfstengt námskeið. Greidd styrkupphæð til fyrirtækisins var rétt undir 3 milljónum króna og má því segja að fyrirtækið hafi náð hámarki í einni svipan, en fyrirtæki geta fengið, óháð stærð, allt að 3 milljónir króna á almanaksári. 

Á bak við heildarstyrkfjárhæð mánaðarins eru 24 fyrirtæki, 33 umsóknir, 500 kennslustundir og 376 einstaklingar.

Lægsta styrkupphæð á staka umsókn var rétt um 16.000 kr. og sú hæsta rúmar ein og hálf milljón króna.

Námskeiðin voru hefðbundin samanber eftirfarandi upptalningu:

Eigin fræðsla
Aukin ökuréttindi
Endumenntun atvinnubílstjóra
Þjónusta og sala
Dyravarðarnámskeið
Samskipti og liðsheild
Öryggisnámskeið
Frumnámskeið á pólsku
Skyndihjálp

Sérstaklega var gaman að sjá umsóknir frá litlum fyrirtækjum í veitingahúsarekstri sem eru að bjóða sínu starfsafólki upp á dyravarðanámskeið, en alls voru 7 umsóknir vegna þess.  Sjá nánar hér

Styrkir til einstaklinga voru samanber eftirfarandi:

Efling greiddi út rúmar 11 milljónir, VSFK tæpar 6 milljónir og Hlíf rak lestina með um 800.000,-.

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband við skrifstofu Starfsafls. Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.