Tryggja þarf sýnileika fræðslunnar
Á Málþing um nýjar áskoranir í framhaldsfræðslu sem haldið var í gær á Nauthól var stjórnarkona í stjórn Starfafls og fræðslustjóri Eflingar, Fjóla Jónsdóttir, með áhugavert erindi sem bar yfirskriftina Sýn stéttarfélaga á nám í fyrirtækjum
Hún hóf mál sitt á því að segja frá því að Starfsafl fræðslusjóður (í eigu Eflingar, Hlífar, VSFK og Samtaka atvinnulífsins) snerti einn þriðja af þeirra félagsmönnum á einn eða annan hátt í gegnum fræðslu sem á sér stað innan fyrirtækjanna. Það væri góður árangur en alltaf má gera betur. Oft væri borið við tímaskorti innan fyrirtækja þegar þessi mál ber á góma og það væri því mikilvægt að fyrirtæki staldri við og gefi sér tíma í þennan málaflokk. Eigi fræðsla að skila árangri og fjárfestingu í tíma og peningum þá þarf að verða hugarfarsbreyting meðal stjórnenda fyrirtækja. Þetta er byrjað að breytast en betur má ef duga skal.
Hún lagði á það áherslu að fyrirtækin eru og hafa verið námsstaðir og væru mikilvægur þáttur menntunar í landinu. Það væri hinsvegar að mörgu leiti ósýnilegt og mikilvægt að nú utan um þá fræðslu. Ætlum við að stýra henni eða hafa áhrif á efni fræðslunnar? Hvernig getum við skráð feril einstaklinganna þeim til hagsbóta og tryggt yfirfærslu þekkingar sagði hún. Það er mikilvægt að greina hvaða störf koma til með að breytast og jafnvel leggjast af en tölur eru um að um 30-40% starfa komi til með að leggjast af á komandi árum. Greina þarf hvaða hæfniþættir koma til með að vaxa í mikilvægi. Þetta þarf að skoða og átta sig á því hvernig tímanum er best varið í að mennta og þjálfa fólk til að svara eftirspurn í vaxandi greinum.
Þá fór hún inn á þær breytingar sem eru að eiga sér stað á vinnumarkaði með aukinni rafrænni fræðslu og sagði það vera jákvæða þróun að rafræn fræðsla sé nú hluti af fræðslu ásamt öðrum aðferðum og undirstrikaði mikilvægi þess að virða vinnutíma og gefa svigrúm til fræðslu innan vinnutímans, en ekki utan hans eða í kjarasamningsbundnum hléum.
Erindi Fjólu var áhugavert og snerti þá fleti sem eru til umræðu og sífelldrar skoðunar hjá Starfsafli og stjórn sjóðsins sem telur það mikilvægt og grundvallarforsendu að vera í takt við þarfir atvinnulífisins, fyrirtækin og einstaklingana sem fyrir þau starfa.