Toppfiskur fær Fræðslustjóra að láni
Undirritaður var gær, þriðjudaginn 30. maí, samningur við Toppfisk um verkefnið Fræðslustjóri að láni.
Verkefnið felur í sér að sjóðurinn leggur til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþörf fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Að þessu sinni er það Margrét Reynissdóttir hjá Gerum betur, sem er í hlutverki fræðslustjórans en hún hefur komið að fjölda slíkra verkefna fyrir hönd sjóðsins.
Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greining og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðnum en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.
Toppfiskur er fjölskyldurekið fyrirtæki þar sem eigendur koma að daglegum störfum. Toppfiskur framleiðir yfir 7.000 tonn á ári af þorski og ýsu í verksmiðju sinni í Reykjavík sem staðsett er við Fiskislóð. Hjá fyrirtækinu starfa tæplega 50 manns og er meirihluti starfsfólks af erlendur bergi brotinn. Starfsaldur er hár og stefna fyrirtækisins fjölskylduvæn.
Myndin er fengin að láni af vef fyrirtækisins.