Það er ekki eftir neinu að bíða

Fimmtudaginn 8. júní sl. var haldinn áhugaverður fundur um færni frá sjónarhóli atvinnulífsins í norrænu samhengi. Net NVL um færni frá sjónarhóli atvinnulífsins hefur nýlega sent frá sér skýrslu með niðurstöðu starfsins og tilmælum um aðgerðir.  Megintilgangur fundarins var að kynna skýrsluna; Kompetens ur ett arbetslivsperspektiv og  fjalla um hvað af tilmælum skýrslunnar ætti helst við á Íslandi út frá sjónarhorni atvinnurekenda- og launþega og m.a. velta því upp hvort tillögurnar passa að íslenskum aðstæðum.
 
Guðrún Eyjólfsdóttir, verkefnastjóri menntamála hjá SA og fulltrúi SA í stjórn Starfsafls,  var meðal þeirra sem tók til máls.  Hún varpaði  fram þeirri spurningu hvort íslendingar væru búnir undir framtíðarstörf og sagði okkur þurfa að hugsa um færniþróun núna, það væri ekki eftir neinu að bíða. Við þurfum samræður, framtíðarsýn, heildstæða stefnu og plan.  Þá sagði hún marga vanmeta hraða breytinganna og varpaði upp skjáskotum af vefsíðum með fréttum sem undirstrika þær breytingar sem eiga sér stað nú þegar í atvinnulífinu og taka til vinnuafls og verklags.  Guðrun endaði sitt innlegg á því að segja að hún væri aðeins að spegla það sem hún heyrir en ljóst var að efnið er henni hugleikið.
 
Það verður áhugavert að sjá hver næstu skref verða en augljóst að það þarf að huga að þessum málum.  Það er eiginlega fullvíst að framtíðarstörfin verða ekki eins og þau eru í dag og þættir eins og sjálfvirkni og gervigreind  verða orðin samofin umræðu um atvinnulíf, færni og endurmenntun.  Það er ekki eftir neinu að bíða.