Terra umhverfisþjónusta styrkt vegna námskeiða
Í vikunni veitti Starfsafl Terra umhverfisþjónustu hf. fimmhundruð þúsund krónur í styrk vegna námskeiða fyrir starfsfólk.
Styrkupphæðin náði til 63 félagsmanna* í hinum ýmsu störfum innan fyrirtækisins.
Styrkurinn var vegna námskeiða í skyndihjálp og eldvarnarfræðslu auk þess sem einn starfsmaður var styrktur vegna meiraprófs en styrkur vegna náms einstaklings getur numið allt að 300.000,- kr. Að því sögðu ber að minna á að fyrirtæki geta fengið allt að 3 milljónir króna í styrk á ári en reglur sjóðsins má kynna sér á vefsíðu Starfsafls.
Terra umhverfisþjónusta hf. leggur ríka áherslu á að auðvelda Íslendingum að skilja ekkert eftir; endurnýta, flokka og meðhöndla endurvinnsluefni og annan úrgang með ábyrgum hætti segir á veffsíðu fyrirtækisins. Þá segir jafnframt að fyrirtækið leggi áherslu á að tryggja starfsfólki góðar starfsaðstæður og tækifæri á reglulegri þjálfun og fræðslu.
Nánari upplýsingar um styrki til fyrirtækja eru veittir á skrifstofu Starfsafls.
* Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar, VSFK eða Hlífar, geta sótt um í sjóðinn. Hámark veittra styrkja á almanaksári er 3 milljónir króna.
Myndin er fengin að láni af vefsíðu fyrirtækisins.