Tækifæri til að gera meira og betur
Í nýjasta félagsblaði Eflingar er að finna viðtal við framkvæmdastjóra Starfsafls, Lísbetu Einarsdóttur. Fyrir áhugasama má nálgast blaðið á vef Eflingar en viðtalið er birt hér í heild sinni.
„Það má sannarlega segja að Starfsafl komi vel undan vetri. Þeim markmiðum sem sett voru síðast liðið haust hefur verið náð og framundan eru aðeins tækifæri til að gera meira og betur“, segir Lísbet Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsafls.
Ársfundur Starfsafls var haldinn í byrjun maímánaðar og voru þar kynntar helstu lykiltölur í rekstri Starfsafls fyrir árið 2018 en vel er fylgst með öllum lykiltölum alla mánuði ársins. Þar ber fyrst að nefna heildarfjárhæð styrkja sem var 253 milljónir króna sem deilist niður á styrki til einstaklinga, styrki til fyrirtækja, sértæka styrki og að síðustu félagslega fræðslu.
Tungumálakunnátta partur af því að aðlagast samfélagi
Lísbet segir að mikill fjöldi einstaklinga sækir um styrk til starfsnáms eða tómstunda á ári hverju enda mikilvægt að sækja nýja þekkingu og færni í atvinnulífi sem tekur sífelldum breytingum.
„Ef rýnt er í það hvaða námskeið félagsmenn sækja þá er íslenskan þar efst á blaði. Það skýrist af þeim fjölda einstaklinga af erlendu þjóðerni sem sækja í sjóðinn og tungumálakunnátta verður alltaf partur af því að aðlagast samfélaginu“. Lísbet segir að því næst komi háskólanám og að síðustu almennt nám í framhaldsskóla. „ Margt ungt fólk safnar rétt í sjóðnum með sumarvinnunni eingöngu og nýtir þann rétt til greiðslu náms-og skólagjalda“.
„Þá má geta þess að á árinu var tekin upp sú nýbreytni að veita styrki vegna ferða erlendis. Styrkur er aðeins veittur þeim sem ferðast erlendis í tengslum við starfstengt nám, námskeið eða ráðstefnu. Ferðastyrknum er meðal annars ætlað að mæta þeim fjölmörgu atvinnubílstjórum sem sækja sér valfag erlendis sem hluta af endurmenntun og ekki er í boði hérlendis“.
Fjölbreytni í námskeiðum
Lísbet segir eitt af verkefnum sjóðsins vera að kynna hann og koma á framfæri. „Um 120 fyrirtæki nýta sér sjóðinn á hverju ári, af ýmsum stærðum og gerðum. Þau eru hinsvegar mun fleiri fyrirtækin sem eiga rétt hjá sjóðnum en kjósa að nýta sér hann ekki og eða, þekkja ekki til hans. Við verðum því að vera dugleg að kynna sjóðinn“.
„Námskeið sem fyrirtæki sækja um styrki vegna bera oftar en ekki keim af þeirri starfsemi sem fyrirtækið er í en fyrirtæki sem sækja í sjóðinn eru einna helst í ferðaþjónustu, öryggisgæslu, matvælaframleiðslu og iðnaði“.
Lísbet segir að sífellt fleiri fyrirtæki eru að fikra sig áfram með rafræna fræðslu og hefur Starfsafl styrkt nokkur fyrirtæki sem fara þá leið. „Það verður áhugavert að sjá hver þróunin verður en gera má ráð fyrir að rafræn fræðsla eigi aðeins eftir að aukast. Þá er brýnt að hafa í huga að rafræn fræðsla skal fara fram á vinnutíma og þar af leiðir þurfa stjórnendur að gefa rými í vínnutíma fyrir fræðsluna“.
Einnig styrkir Starfafl eigin fræðslu fyrirtækja auk þess sem verkefnið Fræðslustjóri að láni þykir eftirsóknarvert og mikilvægt þegar koma á fræðslu fyrirtækis í fastar skorður. „Af nógu er að taka og áhugavert að sjá hversu metnaðarfullt starf er víða innan fyrirtækja í starfsmenntamálum og fagnar Starfsafl því að geta lagt afl á vogarskálarnar“, segir Lísbet.
Eins ber að nefna að Starfsafl styrkir fræðslu sem telst til félagslegrar fræðslu innan Eflingar og er félagsmönnum því að kostnaðarlausu. „Þau námskeið sem telja til félagslegra fræðslu Eflingar voru til að mynda námskeið sem taka til sjálfseflingar, starfsloka og markþjálfunar, svo dæmi séu tekin“, segir hún.
„Flestir eru sammála um mikilvægi vinnustaðar sem námsstaðar. Til að svo sé þarf að veita viðeigandi stuðning, stuðning sem er í takt við tímann og þarfir vinnumarkaðarins. Þar liggja verkefni og markmið Starfsafls. Stjórn og starfsfólk sjóðsins leggur á það áherslu að vera umfram allt fagleg, markviss og stefnumiðuð í sínum störfum. Þannig náum við árangri“, segir Lísbet að lokum.
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.