Styrkir til fyrirtækja vegna einstaklingsnáms
Öll fyrirtæki sem greiða af starfsfólki til Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar, geta sótt um styrki til námskeiðahalds til Starfsafls, samkvæmt reglum þar um. Þá geta fyrirtæki einnig fengið styrki vegna náms einstaklinga, svo sem vegna aukinna ökuréttinda.
Greitt er að hámarki kr. 300.000,- til fyrirtækja vegna einstaklingsnáms starfsmanna (þó aldrei meir en 75% af reikningi). Skilyrði er að viðkomandi starfsmaður hafi þegar hafið störf hjá fyrirtækinu, nafn hans og kennitala komi fram á reikningi þar sem fyrirtækið er tilgreindur greiðandi og iðgjöld hafi borist viðkomandi stéttafélagi.
Hér koma nokkur tilbúin dæmi um styrkveitingar af þessu tagi, þar sem öll skilyrði eru uppfyllt:
Dæmi 1.
Starfsmaður fer á vinnuvélanámskeið þar sem heildarkostnaður námskeiðs er kr. 45.000,- Styrkveiting til fyrirtækisins væri þá kr. 33.750,-
Dæmi 2.
Starfsmaður fyrirtækis sem fer á námskeið til aukinna ökuréttinda. Heildarverð námskeiðs er kr. 310.000,- og styrkveiting til fyrirtækis væri þá kr. 232.500,-
Dæmi 3.
Starfsmaður fer á námskeið sem kostar kr. 430.000,- Þar sem 75% af reikningi er kr. 322.500,- þá væri styrkveiting til fyrirtækis kr. 300.000,- þar sem greitt er að hámarki kr. 300.000,- til fyrirtækja vegna einstaklingsnáms starfsmanna og aldrei meir en 75% af reikningi.
Að síðustu ber að undirstrika það að algjört skilyrði er að starfsmaðurinn sé ekki krafinn um endurgreiðslu á þeim hluta sem telst til styrkfjárhæðar.
Að öðru leyti eiga reglur Starfsafls um fyrirtækjastyrki við, sjá nánar hér
Skrifstofa Starfsafls veitir frekari upplýsingar um styrki til fyrirtækja og þær reglur sem þar gilda.
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.