Steypustöðin ehf styrkt um 800 þúsund krónur

Á dögunum var Steypustöðinni ehf veittur um 800 þúsund króna styrkur vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra.

Steypustöðin ehf heldur úti öflugu fræðslustarfi, byggt á greiningu sem fengin var m.a. með verkefninu Fræðslustjóri að láni í upphafi árs. Með víðtækri fræðsluáætlun sem nær til allra starfsmanna er fræðslustarfi viðhaldið, þ.m.t. er endurmenntun atvinnubílstjóra.

Steypustöðin hóf starfsemi árið 1947 og var frumkvöðull í Evrópu í því að framleiða steypu úr steypubifreiðum og varðaði þannig brautina í mannvirkjagerð á Íslandi á mesta uppgangstíma Íslandssögunnar eftir lok síðari heimstyrjaldar, segir á vefsíðu fyrirtækisins. Núverandi fyrirtæki er byggt á grunni þess sem stofnað var 1947. Steypustöðin er með höfuðstöðvar á Malarhöfða. Þar eru skrifstofur og stærsta steypustöð félagsins. Því til viðbótar er fyrirtækið með steypustöðvar á Selfossi, Vík í Mýrdal, Helguvík. Fjöldi starfsmanna er um 110 talsins

Starfsafl styrkir endurmenntun atvinnubílstjóra eins og aðra starfstengda fræðslu og var styrkur Starfsafls til Steypustöðvarinnar um  800.000 kr. eins og áður segir.  Það munar um minna og styrkur af þessu tagi gerir fyrirtækjum það auðveldara að mæta fræðsluþörfum starfsfólks samhliða stefnu fyrirtækis og kröfum atvinnulífs.

Alls eru það fimm námskeiðshlutar sem falla undir endurmenntunarþáttinn sbr. lög þar um og þar segir m.a. að þeir bílstjórar sem fengið hafa réttindi sín fyrir 10. september 2013 þurfa að klára endurmenntun fyrir 10. september 2018. Það er því brýnt fyrir fyrirtæki að huga að þessum þætti en nánari upplýsingar má finna hér

Lista yfir fræðsluaðila sem taka að sér endurmenntun atvinnubílstjóra má sjá hér

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni og styrki til fyrirtækja má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550
Starfsafl fræðslusjóður var stofnaður á grundvelli kjarasamninga árið 2000. Sjóðurinn er í eigu Samtaka atvinnulífsins annars vegar og Flóabandalagsins (þ.e. Eflingar stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélagas Keflavíkur og nágrennis) hins vegar.

Myndin er fengin að láni af vef fyrirtækisins