Steypustöðin fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Steypustöðina ehf.

Steypustöðin hóf starfsemi árið 1947 og var frumkvöðull í Evrópu í því að framleiða steypu úr steypubifreiðum og varðaði þannig brautina í mannvirkjagerð á Íslandi á mesta uppgangstíma Íslandssögunnar eftir lok síðari heimstyrjaldar, segir á vefsíðu fyrirtækisins. Núverandi fyrirtæki er byggt á grunni þess sem stofnað var 1947.

Meginstarfsemi Steypustöðvarinnar er framleiðsla á blautsteypu en auk þess eru framleiddar hellur og allt sem því tilheyrir. Steypustöðin er með höfuðstöðvar á Malarhöfða. Þar eru skrifstofur og stærsta steypustöð félagsins. Því til viðbótar er fyrirtækið með steypustöðvar á Selfossi, Vík í Mýrdal, Helguvík. Gæðamál eru leiðarstefið í rekstri fyrirtækisins og þar er þjálfun starfsmanna lykilatriði. Með verkefninu Fræðslustjóri að láni er verið að formfesta fræðslu fyrirtækisins og tengja enn frekar stefnu fyrirtækisins.

Fjöldi starfsmanna er um 110 talsins og er ætlaður fjöldi tíma alls 53. Fimm sjóðir styrkja verkefnið; Starfsafl sem leiðir verkefnið, SVS, Landsmennt, Samband stjórnendafélaga og Iðan. 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Margrét Reynisdóttir hjá Gerum betur ehf er ráðgjafi verkefnisins en hún hefur komið að fjölda fræðslustjóraverkefna á vegum sjóðanna.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550

Myndin er fengin að láni af vef fyrirtækisins