Lagardère Travel Retail fær Fræðslustjóra að láni

Undirritaður hefur verið samningur um verkefnið Fræðslustjóra að láni við Lagardère Travel Retail ehf. Fyrirtækið er íslenskt, í eigu franskra og íslenskra aðila, og sér um rekstur veitingastaða og sælkeraverslunar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Markmið fyrirtækisins er að bjóða framúrskarandi þjónustu í lifandi og alþjóðlegu starfsumhverfi.

Á vefsíðu fyrirtækisins segir að rík áhersla sé á að starfsmenn fái góða þjálfun, bæði almenna og sértæka.  Með samningi um Fræðslustjóra að láni er verið að formfesta enn frekar þá þjálfun sem er og móta til framtíðar.

Fjöldi starfsmanna er 150 talsins og er ætlaður fjöldi tíma alls 61. Þrír sjóðir styrkja verkefnið; Starfsafl, SVS og Iðan. 

Verkefnið felur í sér að sjóðirnir leggja til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþarfir fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Að þessu sinni er Birna Jakobsdóttir hjá MSS, Miðstöð símenntunar á suðurnesjum, í hlutverki fræðslustjórans en hún hefur tekið að sér nokkur slík verkefni við góðan orðstír. Birna þekkir ennfremur sérstaklega vel til fyrirtækisins þar sem MSS hefur verið þeim innan handar með fræðslu fyrir starfsmenn.

Fræðsluáætlunin skal vera með útfærslu að leiðum, tímasetningu námskeiða og tillögum að fræðsluaðilum ásamt aðgerðum um þjálfun og menntun til styttri og lengri tíma. Greiningin og fræðsluáætlunin er ávallt unnin í nánu samstarfi með starfsmönnum og stjórnendum fyrirtækisins. Allur kostnaður vegna ráðgjafans er greiddur af þeim sjóðum sem að verkefninu koma en framlag fyrirtækisins felst í framlögðum tíma starfsfólks.

Nánari upplýsingar um verkefnið Fræðslustjóra að láni má nálgast á vef Starfsafls, www.starfsafl.is eða í síma 5107550