Starfsafl styrkir fræðslu byggingastarfsmanna
Það er hverjum og einum mikilvægt að þróast í starfi, viðhalda færni og öðlast nýja. Hæfni þarf að vera í takt við þarfir og kröfur atvinnulífsins, þannig er markaðsforskoti náð.
Í nýgerðum kjarasamningi Eflingar stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins 2019 er skilgreint að byggingastarfsmenn eigi rétt á að sækja námskeið í skyndihjálp og fallvörnum ásamt öryggi og heilbrigði á vinnustað í allt að 8 klst. á fyrsta starfsári. Því til viðbótar var gerð bókun um að þeir sem hafa lokið fyrrgreindu eigi að fá tækifæri til að sækja námskeið eins og t.d. niðurlögn steinsteypu, uppsetning á vinnupöllum, járnabending og lóðafrágangur, hjá viðurkenndum fræðsluaðilum.
Starfsafl, Efling og Iðan fræðslusetur funduðu undir lok sumars til þess að skýra leiðir og koma málum í farveg. Iðan hefur hug á að bjóða upp á þau námskeið sem hér hafa verið upp talin frá og með haustinu og Starfsafl styrkir samkvæmt reglum þar um.
Fyrirtæki sem greiða af starfsfólki til Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar, geta sótt um styrki til Starfsafls en Starfsafl styrkir að öllu jöfnu fyrirtæki um 75% af kostnaði fyrir sína félagsmenn.
Sjá reglur um styrki til fyrirtækja hér.
Um Starfsafl:
Starfsafl fræðslusjóður er í eigu Samtaka atvinnulífsins og Flóabandalagsins; Eflingar, VSFK og Verkalýðsfélagsins Hlífar. Sjóðurinn varð til á grundvelli kjarasamninga árið 2000 og hlutverk hans er að styrkja félagsmenn og fyrirtækin sem þeir starfa hjá, í starfsmenntun.
Stykir til einstaklinga eru afgreiddir af stéttafélögunum en Starfsafl afgreiðir styrki til fyrirtækja. Tekjur Starfsafls eru starfsmenntaiðgjald sem er samningsbundið gjald atvinnurekenda til sjóðsins, eins og um er samið á hverjum tíma.