Starfsmaður 21 aldarinnar

Starfsmaður 21. aldarinnar!“ er hagnýtt námskeið fyrir alla þá sem þurfa og vilja styrkja sig í tækni.

Námskeiðið miðast við að nálgast tæknina og útskýra helstu tæknihugtök á „mannamáli“ með það að markmiði að efla sjálfstraust gagnvart tækni.

Námskeiðið er hugsað sem fyrsta skrefið inn í tækniheiminn og er virkniúrræði sem Mímir hefur þróað til að efla einstaklinga til að takast á við áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar.  Störf margra munu breytast mikið eða jafnvel hverfa sökum tæknivæðingar, jafnvel enn fyrr en búist var við í kjölfar efnahagsþrenginga vegna Covid-19. Markmiðið er að grípa þá einstaklinga sem eiga á hættu að missa störf sín og þá sem hafa nú þegar misst vinnuna og/eða eru í hlutastarfi.

Á námskeiðinu er leitast við að efla einstaklinga í þeirri tækni sem mest ákall er um að einstaklingar tileinki sér til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaði. Námskeiðið snýr að því að upplýsa einstaklinga um möguleg áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á samfélagið og einstaklinga á vinnumarkaði, sem og greina ákjósanlega hæfni og færni hvað varðar tækni með tilliti til niðurstaðna Stafræna hæfnihjólsins sem VR-stéttarfélag hefur þróað og hjálpar einstaklingum að greina eigin tæknifærni.

Fræðslusjóðir atvinnulífsins, þar með talið Starfsafl, greiða að fullu þátttöku sinna félagsmanna*(starfsfólk á almenna markaðnum) og fá því félagsmenn í Eflingu stéttarfélagi, Verkalýðsfélaginu Hlíf í Hafnarfirði og Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis  námskeiðið að fullu niðurgreitt.  Athugið takmörkun á fjölda. 

Námskeiðið er samtals 28 klukkustundir og skiptist í tvo hluta.

Fyrri hluti

  • Fjórða iðnbyltingin.
  • Leiðarvísar að farsælu lífi.
  • Stafræna hæfnihjólið.

Seinni hluti

  • Örvinnustofa 1: Hagnýting samfélagsmiðla (sóknarfæri á samfélagsmiðlum).
  • Örvinnustofa 2: Google í starfi, leik og námi (hluti af óþrjótandi möguleikum Google umhverfisins kynntir).
  • Örvinnustofa 3: Stafræn gagnavinnsla (myndvinnsla o.fl.).
  • Örvinnustofa 4: Forritun og stillingar (tölvuhlutar, tengingar og sjálfvirknivæðing).

Námskeiðið er kennt í fjarnámi og geta einstaklingar um allt land sótt það. Þeir sem telja sig þurfa tæknilegan stuðning við fjarnám eða vantar tilheyrandi búnað (tölvu með vefmyndavél og nettengingu) er velkomið að sitja námskeiðið í húsnæði Mímis að Höfðabakka 9 og fá stuðning.

Náms- og starfsráðgjafar Mímis eru einnig til staðar. Kennarar á námskeiðinu eru sérfræðingar í sínu fagi og vanir að nálgast nemendur á mismunandi getustigi hvað tækni varðar.

Tímasetning

Fyrsta námskeiðið hefst 20. október og lýkur 29. október 2020. Skráning og nánari upplýsingar á vef Mímis, www.mimir.is

Sjá nánar hér

Kynningarmyndband 

*Vinsamlegast athugið að aðild að Starfsafli nær einungis til fyrirtækja og starfsfólks þeirra.  Starfsfólk leikskóla, hjúkrunarheimila, skrifstofu reykjavíkurborgar og annarra opinberra stofnanna telst ekki til Starfsafls.