Starfsafl í fræðslufréttum SAF

Samtök ferðaþjónustunnar gáfu á dögunum út Fræðslufréttir SAF.  Í inngangsorðum segir María Guðmundsdóttir fræðslustjóri  SAF samtökin hafa látið sig mennta- og fræðslumál miklu varða á undanförnum árum og mikið hafi verið lagt í hvatningu, samstarf og nýsköpun á þessu sviði.Í því samhengi er vert að benda á skýrslunna  Fjárfestum í hæfni starfsmanna sem er til mikillar fyrirmyndar og hefur verið lögð til grundvallar allri vinnu.  Þá segir María jafnframt mikilvægt nú þegar áföll dynja yfir greinina að tíminn sé nýttur til að styrkja sig á vinnumarkaði enda hefur sí- og endurmenntun sjaldan verið mikilvægari. Þegar fram líða stundir og viðspyrna hefst í greininni er mikilvægt að við höfum á öflugu og vel þjálfuðu starfsfólki að skipa því mikill þekkingarleki í greininni gæti reynst þessari mikilvægu atvinnugrein dýrkeyptur.  Það eru orð að sönnu.

Í þessum fræðslufréttum má jafnframt finna innlit til fræðslusjóðanna, þar með talið Starfsafls, þar sem gerð er grein fyrir þeirri þjónustu sem hér er í boði en fyrirtæki í ferðaþjónustu* hafa verið ötul við að sækja í sjóðinn undanfarin ár en 29% þess fjár sem fór í styrki til fyrirtækja árið 2019 fór til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þar er undanskilin veitingasala sem var 13%, en veitingasölu má sannarlega fella undir ferðaþjónustuna. Samtals eru það því 42% sem fóru til ferðaþjónustunnar árið 2019.  Starfsafl hefur unnið mikið með ferðaþjónustunni og verið sterkur bakhjarl þegar kemur að greiningu fræðsluþarfa þar sem verkefnið Fræðslustjóri að láni hefur verið notað, með sértækum styrkjum til Hæfnisseturs ferðaþjónustunnar þar sem unnið er að ýmsum úrræðum fyrir ferðaþjónustuna og ekki síst með beinum styrkjum til fyrirtækja vegna fræðslu starfsfólks.  

Hér má lesa fræðslufréttir SAF.

Hér má lesa umfjöllun um Starfsafl í fræðslufréttum SAF

Fyrirtæki sem hafa áhuga á að kynna sér sjóðinn og kanna hvaða leiðir eru færar, er velkomið að hafa samband í síma 6930097 eða með tölvupósti á lisbet@starfsafl.is

Einstaklingum er bent á hlutaðeigandi stéttafélag, en þar fer fram afgreiðsla styrkja til einstaklinga.

* Öll fyrirtæki sem greiða iðgjöld af starfsfólki til Eflingar, VSFK eða Hlífar, geta sótt um í sjóðinn. Hámark veittra styrkja á almanaksári er 3 milljónir króna.  

Myndin með fréttinni er fengin hér