Starfsafl styrkir Samskip

Greiddur hefur verið styrkur til Samskipa að upphæð kr. 581.175,- og var þar um að ræða styrk vegna endurmenntunarnámskeiða fyrir atvinnubílstjóra sem starfa hjá fyrirtækinu. Um fræðsluna sá Framvegis, miðstöð símenntunar.

Lögum samkvæmt ber atvinnubílstjórum, með ökuréttindi til að aka stórum ökutækjum í atvinnuskyni, að taka reglubundna endurmenntun vilji þeir viðhalda sínum réttindum og er það bundið í kjarasamningum að atvinnurekandi greiði þann kostnað sem til fellur.
 
Samskip er þriðja fyrirtækið sem sækir styrk vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra til Starfsafls, en áður hafa verið greiddar kr. 1.021.619,- til Eimskipa og kr. 148.548,- til Kynnisferða. Alls hafa styrkir Starfsafls til fyrirtækja, vegna endurmenntunar atvinnubílstjóra, verið kr.1.751.342,- sé litið til ársins sem er að líða. Á bak við þá upphæð eru 119 félagsmenn.
 
Að jafnaði styrkir Starfsafl 75% af kostnaði við fræðsluaðila og greiðir aðeins fyrir starfsmenn sem greitt er af til sjóðsins, þ.e. eru félagar í  Eflingu‐ stéttarfélagi, Verkalýðsfélaginu Hlíf og Verkalýðs‐ og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis.
 
Frekari upplýsingar um fyrirtækjastyrki Starfsafls má sjá hér
 
Myndin sem fylgir fréttinni er fengin að láni á vef Samskipa, www.samskip.is