Starfsafl styrkir rafrænt nám
Aukin áhrif tækninýjunga og rafrænna lausna í námi hafa aukist mikið s.l. ár og er fræðsla innan fyrirtækja þar ekki undanskilin. Með aukinni notkun snjalltækja er hægt að færa fræðsluna nær starfsmanninum og hans vinnustað sem felur í sér mikið hagræði, bæði fyrir starfsmanninn og fyrirtækið sem hann starfar hjá.
Þeir kostir sem rafræn fræðsla felur í sér eru m.a. mikill sveigjanleiki, þar sem rafrænt nám getur farið fram hvar sem er og hvenær sem er. Þá geta nemendur lært á eigin hraða innan ákveðins tímaramma og kostnaður er oftar en ekki minni. Ferðalög vegna námskeiðahalds heyra sögunni til og ekki þarf að bíða eftir nægum fjölda þátttakanda til að fylla námskeið, það nægir að hafa einn starfsmann og snjalltæki hverju sinni. Það er því ekki að furða að sífellt fleiri fyrirtæki kjósi þá leið að bjóða sínu starfsfólki upp á rafræna fræðslu.
Ávallt verður að hafa í huga að hafa svigrúm, innan vinnutímans, fyrir rafræna fræðslu. Hún á ekki að fara fram utan vinnutíma eða í kjarasamningsbundnum hléum starfsfólks.
Á síðastliðnu ári styrkti Starfsafl nokkur fyrirtæki vegna áskriftar að rafrænum námsgrunni. Notuð var sama reikniregla og notuð er vegna aðkeyptrar fræðslu, það er 75% af reikningi fyrir félagsmenn. Það hefur reynst mjög vel og þykir góð leið til að styðja við fyrirtæki og þeirra starfsmenn. Engu að síður er stjórn Starfsalfs enn að finna taktinn hvað þetta varðar og tekur því allar umsóknir vegna rafrænna styrkja til umfjöllunar og áskilur sér rétt til að hafna umsókn ef svo ber undir.
Forsvarsmenn fyrirtækja sem eru hvattir til að hafa samband og kynna sér mögulega styrki.