Rafræn fræðsla styrkt

Áhrif tækninýjunga og rafrænna lausna í námi hafa aukist mikið s.l. ár og er fræðsla innan fyrirtækja þar ekki undanskilin.  Í því samhengi hefur Starfsafl ákveðið að styrkja rafræna fræðslu fyrirtækja og styðja þar við enn frekar við fyrirtæki sem halda uppi öflugu fræðslustarfi.
 
Það eru óteljandi kostir við rafræna fræðslu, s.s. bíður hún upp á  aukinn sveigjanleika, þ.e. getur farið fram hvar sem er og hvenær sem er, nemendur geta lært á eigin hraða innan ákveðins tímaramma og kostnaður er minni. Það er því ekki að furða að sífellt fleiri fyrirtæki kjósi þá leið að bjóða sínu starfsfólki upp á rafræna fræðslu.
 
Um tilraunaverkefni er að ræða til eins árs og áskilur stjórn Starfsafls sér rétt til að breyta reglunum ef þurfa þykir.   
 
Reglur Starfsafls um rafræna fræðslu eru sem hér segir:
 
1. Rafræn fræðsla / netnámskeið eru námskeið sem eru að fullu eða öllu leyti á tölvutæku formi (netbased learning, online learning, e-learning).
 
2. Námsefnið þarf að vera útbúið af fyrirtækinu eða að beiðni þess (ekki aðkeypt eða greitt fyrir í formi áskriftar).
 
3. Starfsafl áskilur sér rétt til að skoða og leggja mat á það fræðsluefni sem styrkt er.
 
4. Fyrirtæki sem hafa hug á að sækja um styrki vegna rafrænnar fræðslu verða að gera samning fyrir fram.   Slíkur samingur tekur  til ákveðins tíma í senn og greinir frá efni námskeiða, tíma og fjölda þátttakenda.
 
5. Innan fyrirtækis þarf að vera kerfi sem heldur utan um hverjir sækja fræðsluna og þarf listi með nöfnum þátttakenda að berast sjóðnum eftir að námskeiði er lokið og áður en greitt er. 
 
6. Tímalengd námskeiðs sem styrkt er þarf að vera að lágmarki  30 mínútur *
 
7. Greiddar eru kr. 3500,- fyrir hvern þátttakanda. 
 
8. Ekki er greiddur kostnaður vegna námsgagna.
 
*Hvert námskeið getur verið í nokkrum lotum og er þá styrkt sem eitt námskeið
 
Nánari upplýsingar eru veittar á skrifstofu Starfsafls í síma 5107550 / 5107551 eða með tölvupósti á [email protected]