Námsefnisgerð í ferðaþjónustu styrkt
Nýlega var undirritaður samstarfssamningur milli Samtaka ferðaþjónustunnar, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og VAKANS um auknar forvarnir og öryggi í ferðaþjónustu. Markmiðið með samningnum er að bæta námsframboð og þjálfun starfsmanna í afþreyingarferðaþjónustu á Íslandi með hliðsjón af þeim kröfum sem gerðar eru í VAKANUM – gæðakerfi ferðaþjónustunnar.
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) höfðu frumkvæði að því að efla samstarf milli ofangreindra aðila með það fyrir augum að aðlaga betur fjölbreytt námsefni Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar og heimasíðu að þörfum ferðaþjónustunnar.
Sérstakur rýnihópur sem samanstóð af fulltrúum fyrirtækja innan SAF ásamt fulltrúum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Ferðamálastofu og VAKANUM hafa unnið að endurskoðun þessara þátta. Nú hafa tíu algengustu námskeiðin á vegum Björgunarskólans verið endurskoðuð sem sérstaklega eru ætluð ferðaþjónustunni, m.a. með áherslu á forvarnir og öryggismál.
Tíu algengustu námskeiðin:
– Fyrsta hjálp 1
– Rötun
– Vettvangshjálp í óbyggðum (WFR)
– Öryggi við sjó og vötn
– Sprungubjörgun
– Fjallamennska
– Ferðamennska
– Snjóflóð 1
– Straumvatnsbjörgun (SRT)
– GPS
Eru þetta m.a. fyrirbyggjandi námskeið með það að markmiði að efla fagmennsku á sviði afþreyingarferðamennsku í ferðaþjónustu.
Þrír starfsmenntasjóðir; Starfsafl, Landsmennt og SVS styrktu vinnu við endurskoðun á námsefni og svæði Björgunarskólans á heimasíðu Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem nú er orðið aðgengilegra fyrirtækjum í ferðaþjónustu.
Frá undirritun samstarfssamnings um auknar forvarnir og öryggi í ferðaþjónustu. Þorvaldur Friðrik Hallsson, varaformaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, María Guðmundsdóttir, fræðslustjóri SAF og Áslaug Briem, verkefnastjóri gæðamála hjá Ferðamálastofu. Mynd: Samtök ferðaþjónustunnar Byggt á frétt á vef SAF.