Starfsafl og ferðaþjónustan
Á ári hverju sækir fjöldi fyrirtækja styrk til Starfsafls og er aukning á milli ára stigvaxandi. Þau fyrirtæki sem sótt geta til Starfsafls eru fyrirtæki með starfsfólk innan Eflingar, VSFK og Hlífar, en þau eru fjölmörg og í ólíkum greinum, s.s. fiskvinnslu, iðnaði og ferðaþjónustu, svo dæmi séu tekin. Þá er hámarksstyrkur til fyrirtækja um 3 milljónir króna á ári og þar munar um minna.
Á síðasta ári voru þau fyrirtæki sem sóttu um styrk til sjóðsins 80 talsins og heildarkostnaður vegna fyrirtækjastyrkja var rúmlega 35 milljónir kr. og er aukning um 10 milljónir króna á milli ára. Það sem vekur athygli er hlutfallsleg skipting á milli atvinnugreina og augljóst að ferðaþjónustan nýtir vel það bakland sem sjóðurinn er. Sé litið til ársins 2016 þá voru styrkir til ferðaþjónustunnar 42% veittra styrkja og hefur aukist um 10% á milli ára. Þetta er vel og ánægjulegt að fræðslusjóðurinn geti stutt við grein i svo miklum vexti og stuðlað að aukinni hæfni þeirra einstaklinga sem starfa í greininni.
Þá fengu 3 fyrirtæki í ferðaþjónustu verkefnið Fræðslustjóri að láni. Verkefnið felur í sér að sjóðurinn, einn sér eða í samstarfi við fleiri sjóði, leggur til “Fræðslustjóra að láni”, fræðslu- og mannauðsráðgjafa, sem greinir fræðsluþörf fyrirtækisins og semur fræðsluáætlun byggða á greiningunni. Einnig var ráðist i klasaverkefni þar sem nokkur fyrirtæki í ferðaþjónustu sameinuðust um fræðslustjóra. Um tilraunaverkefni var að ræða sem tókst einstaklega vel og vonir standa til útfæra það verkefni enn frekar.
Að síðustu ber að nefna að Starfsafl ásamt Eflingu hefur staðið fyrir námi fyirr þernur og styrkt það eins og reglur gera ráð fyrir auk þess sem sjóðurinn ásamt eigendum hefur fjármagnað þarfagreiningu á fræðslu fyrir hópferðabílstjóra. Hvorutveggja hefur verið unnið í góðu samstarfi við Mímir Símenntun og fyrirtæki í greininni.
Það er því ljóst að heilmikið starf á sér stað innan Starfsafls og næg verkefni. En betur má ef duga skal og ljóst að fjöldi fyrirtækja í ferðaþjónustu er ekki að sækja til sjóðsins en á til þess rétt og hvetur Starfsafl fyrirtæki til að kynna sér reglur sjóðsins og hafa samband.